149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

laxeldi í sjókvíum.

[14:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vinnur sá ráðherra sem hér stendur eftir stjórnarsáttmálanum þar sem kveðið er á um, ef ég man þetta nokkurn veginn rétt, að það beri að vinna að uppbyggingu fiskeldis þannig að það samræmist sem mest umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum. Ég tel að við þurfum að þróa fiskeldið okkar meira með aðferðum sem hafa minni áhrif á umhverfið. Þar hef ég sérstaklega í huga villta laxastofna úti um allt land og tel að til framtíðar þurfum við að stefna að því að geta verið með fleiri aðferðir, þróa geldfiskeldi, þróa eldi á landi, þróa eldi sem mögulega er í lokuðum sjókvíum, en það tekur allt saman tíma. Þetta er langtímaþróun sem ég tel að við eigum að horfa meira til þannig að við getum raunverulega sagt með stolti að okkar fiskeldi sé að þróast í átt að því sjálfbærasta sem hægt er í okkar ágæta landi.