149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

kostir og gallar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

159. mál
[14:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd utanríkisráðherra þakka hæstv. forseta og hv. þingmönnum fyrir auðsýndan skilning á þeirri staðreynd að umfang skýrslunnar sem beðið er um er öllu meira en almennt tíðkast varðandi skýrslubeiðnir á grundvelli 54. gr. þingskapalaga. Ákveðið var að ráðast í ítarlegri vinnu en gert var ráð fyrir og rúmast innan reglnanna og því skipaði utanríkisráðherra starfshóp 30. ágúst sl. til að vinna skýrsluna. Hópurinn hóf þegar störf og í hann skipaði utanríkisráðherra þrjá valinkunna einstaklinga sem hafa mikla þekkingu á þeim málum, þ.e. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, sem er formaður hópsins, Kristrúnu Heimisdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur. Starfshópurinn fær 12 mánuði til skýrslugerðarinnar og hefur þegar farið af stað af miklum krafti. Hann hefur haldið fimm fundi á einum mánuði og hitt um tíu sérfræðinga nú þegar.

Það er vel við hæfi að gera ítarlega og vandaða úttekt á aðild Íslands að samningnum þegar 25 ár eru liðinn frá gildistöku hans.