149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

kostir og gallar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

159. mál
[14:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kveð mér aðallega hljóðs til að reyna að átta mig á vinnulagi Alþingis í slíkum málum. Um skýrslubeiðnina sem var samþykkt á síðasta þingi, eins og aðra skýrslubeiðni frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, háttar svo til að ráðherrarnir sem um ræðir, ég í tilviki hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og hæstv. utanríkisráðherra í tilviki hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, hafa sent Alþingi bréf. Við upplýstum að við teljum verkið svo viðamikið að við þurfum tiltekinn tíma. Við höfum lýst því hvaða vinna stendur yfir og í hvaða ferli málin eru. Ég átta mig því ekki alveg á því af hverju Alþingi setur á dagskrá á nýjan leik, í tilfelli þessarar skýrslubeiðni, skýrslubeiðni sem er í ferli. Ég skil ekki tilganginn með því, hæstv. forseti, ef ég má gerast svo frökk að velta því fyrir mér hvort þetta sé ekki rætt á vettvangi forsætisnefndar og hv. þingflokksformanna. Mér finnst það ekki rökrétt, hæstv. forseti.