Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Já, þetta er lagatæknilegt atriði. Allur þessi úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er lagatæknilegur. Hann fjallar ekkert um efnisatriði málsins. Ég sagði ekkert um að engin umhverfisvá væri af fiskeldi eða að ég gerði engar athugasemdir við að fiskeldi væri starfrækt hér. Ég sagði hins vegar að úrskurðarnefndin hefði í úrskurði sínum ekki verið að fella rekstrar- og starfsleyfi úr gildi á þeim grundvelli. Það er ekki það sama og að sú sem hér stendur telji að þetta sé allt í fullkomnu lagi.

Það sem ég hef verið að leggja til er hins vegar að farið sé í frestun réttaráhrifa, sem líka er lagatæknileg, til þess að starfsemin geti haldið áfram í staðinn fyrir að fara í svona almenna lagasetningu. Eins vænt og hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur þykir um byggðir landsins, þá held ég að henni þyki líka það vænt um náttúru landsins að henni sé ekki alveg sama um það hvernig um hana er gengið. Þess vegna skiptir máli að við búum þannig um málin með lögum að ekki sé beinlínis verið að gefa afslátt á reglum, að ekki sé beinlínis gefin uppskrift að því hvernig redda eigi málunum þegar í óefni er komið. Það finnst mér pínulítið einkenna frumvarpið sem hér er til umfjöllunar.

Ég hef áhyggjur af því, eins og ég sagði frá hér áðan, að þetta gæfi mjög röng skilaboð til framtíðar, þ.e. í staðinn fyrir að fara í frestun réttaráhrifa í einstaka málum þar sem það er óhætt sé í raun verið að gefa afslátt á að þú uppfyllir ákveðin skilyrði þegar þú færð leyfi.