Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:33]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er komin hingað með fína skrifaða ræðu sem ég ætla að víkja aðeins út frá og byrja á henni á eftir. Ég ætla að grípa það sem hv. þm. Smári McCarthy var að tala um áðan af því að þar hitti hann naglann á höfuðið. Þetta er það sem samfélög um allt land hafa verið að kalla eftir. Þau kalla ekki eftir sértækum aðgerðum. Þau kalla ekki eftir stóriðju eða öðru slíku. Þau kalla eftir aðstæðum og innviðum sem gera þeim kleift að byggja upp fjölbreytta atvinnuvegi til þess að vera ekki ítrekað í þeirri stöðu að útgerðarmaðurinn ákveður að flytja úr þorpinu, að úrskurðarnefnd kippi fótunum undan heilli atvinnugrein sem þýðir að allt samfélagið er undir. Samfélög úti um allt land hafa kallað eftir því að við stöndum okkur í að tryggja þeim viðunandi innviði, viðunandi aðstæður til að byggja upp atvinnulíf, og því miður höfum við fallið á því prófi hingað til.

Við fjöllum um breytingar á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, til að bregðast við þeirri flóknu stöðu sem er komin upp með niðurfellingu leyfa fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Eins og við þekkjum flest hefur sjókvíaeldi verið umdeilt á Ísland og auðvitað víða um heim vegna umhverfisáhrifa sem geta verið töluverð ef ekki er haldið vel á spilunum.

Ábyrgð þingsins, löggjafans, hvað þetta varðar er mikil. Það er hlutverk þingsins að koma fram með stefnumótun og lagasetningu þar sem settar eru skýrar leikreglur. Að mínu mati er mikilvægt að setja kröfur um umhverfis- og mengunaraðbúnað greinarinnar og hefur greinin sjálf jafnvel kallað eftir slíku. Sömuleiðis er farið að liggja nokkuð á að þingið ræði gjaldtöku fyrir nýtingu á auðlindum þjóðarinnar, enda ekki eðlilegt að þær séu einfaldlega gefnar.

Því miður erum við ekki að fjalla um það í dag heldur erum við að bregðast við því sem telja má að hafi verið ágalli í fyrri lögum, þ.e. skort á heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða þegar ríkar ástæður mæla með því. Við erum því ekki að fjalla um í dag hvort við séum með eða á móti fiskeldi sem slíku eða hvaða lög og reglur eigi að gilda um það heldur að ræða hvort við séum tilbúin til að bregðast við og lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar.

Í greinargerð frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar.“

Þannig er ekki gætt að meðalhófi sem er ein mikilvægasta regla íslenskrar stjórnsýslu.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur nú þegar sambærilegt leyfi í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið er á um í 6. gr. II. kafla að ráðherra sé heimilt ef ríkar ástæður mæla með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og eftir atvikum heilbrigðisnefndar að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í dag er lögð til sambærileg heimild handa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti að vera til staðar og því að ljóst að um annmarka á lögunum er að ræða.

Staðreyndin er samt sem áður sú að þetta eru ekki alveg eðlilegar aðstæður. Með missi rekstrar- og starfsleyfa fiskeldisfyrirtækjanna standa samfélögin fyrir vestan frammi fyrir þeim veruleika að hátt í 300 manns munu missa vinnuna, sem er eðlilega mikið sjokk fyrir lítið samfélag eins og Vestfirði.

Bent hefur verið á að það hljóti að vera í lagi þar sem lítið atvinnuleysi sé fyrir vestan en staðreyndin er sú að atvinnuleysi fyrir vestan er svo lágt vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að þegar fólk missir vinnuna flytur það einfaldlega í burtu og leitar starfa annars staðar. Ef allt fer á versta veg óttast ég hið versta fyrir framtíð búsetu á Vestfjörðum og gjaldþrot miklu fleiri en fiskeldisfyrirtækjanna.

Að því sögðu vil ég hvetja til þess að við leggjum kapp á að reyna að ná umræðunni um fiskeldið upp úr skotgröfunum og séum ekki endalaust að teikna þetta upp sem andstæður. Lífið er ekki svart/hvítt á þann hátt að umhverfissinnar séu sjálfkrafa á móti fiskeldi eða þeir sem vilja fiskeldi séu sjálfkrafa umhverfissóðar. Þetta er ekki svona einfalt. Sömuleiðiss er mikilvægt að við festumst ekki í þeirri umræðu að þetta sé höfuðborg á móti landsbyggð eða landsbyggð á móti höfuðborg. Þetta er ekki svona einfalt.

Frú forseti. Það væri miklu skemmtilegra að vera hérna uppi að ræða stóra málið sem er fiskeldið og atvinnugreinin, fiskeldið sjálft, því að margt þarf að gera og breyta í löggjöfinni til að tryggja uppbyggingu öruggs fiskeldis í sátt við umhverfið. Þar höfum við fjölmörg tækifæri til að læra af nágrönnum okkar sem þegar hafa rekið sig á fjölmargt, til að mynda af Norðmönnum og Færeyingum. Þó að aðstæður séu ef til vill ekki fullkomlega sambærilegar breytir það því ekki að við getum sannarlega lært af þeim og verðum að gera það.

Við þurfum líka að styðja betur við þróun, rannsóknir og nýsköpun aðferða í fiskeldi til að íslenskt fiskeldi geti vaxið og þróast eins og aðrar atvinnugreinar í landinu. Við berum hins vegar líka mikla ábyrgð gagnvart náttúru Íslands og okkur ber því skylda til þess að draga úr umhverfisáhrifum laxeldis á hvaða hátt sem við getum.

Um það snýst málið hins vegar ekki heldur um lagatæknilegt atriði sem snýr að valkostagreiningu umhverfismatsins. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar fjallar ekki um hvort að fiskeldi sé gott eða slæmt heldur virðist því miður hafa orðið ágalli í umhverfismati. Ágallinn virðist felast í því að ekki hafi verið nægilega vel reifaðir aðrir valkostir sem fiskeldisfyrirtækin hefðu mögulega geta valið. Í matsskýrslu sinni nefna þau reyndar að þau telji ekki aðra valkosti raunhæfa og virðast Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafa verið sammála því mati fyrirtækisins, en úrskurðarnefndin virðist samt sem áður ekki telja valkostina nægilega vel reifaða og niðurstaðan því að ógilda starfs- og rekstrarleyfin sem hlýtur að teljast nokkuð harkarleg niðurstaða miðað við ferli sambærilegra mála, t.d. í framkvæmdum.

Að mínu mati er því skynsamlegast að gefa fiskeldisfyrirtækjunum tækifæri til að lagfæra þá vankanta sem úrskurðarnefndin bendir á. Til að geta það virðist þessi lagasetning nauðsynleg, til að afleiðingar úrskurðarins verði ekki óafturkræfar og allt of harðar, ekki aðeins gagnvart fyrirtækjunum heldur einnig gagnvart Vestfirðingum og þar með landsmönnum öllum.

Atvinnuveganefnd mun funda og fara fyrir málið og það fá þinglega meðferð. Væntanlega verða allar hliðar þess skoðaðar og möguleikum velt upp eins og í öðrum málum. Við fyrstu sýn virðist þetta vera eina leiðin til lausnar á þeirri flóknu stöðu sem komin er upp, enda óásættanlegt að hægt sé að setja lífsviðurværi heilla landshluta í uppnám.

Frú forseti. Þetta varðar líf og viðurværi raunverulegs fólks. Við verðum að taka það alvarlega.