Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:27]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Umræðan hér gefur tilefni til að spyrja hvort fiskeldi sé umhverfismál. Maður svarar auðvitað: Hvað annað? Eða hvað? Auðvitað eru fiskeldismál ýmislegt annað en umhverfismál. Þau varða bæði stjórnsýslu og lagaumhverfi. Harðir gagnrýnendur fiskeldis finna ágalla í allgömlu leyfi og kæra leyfisveitinguna byggða á samþykktri matsskýrslu. Og hver er þessi ágalli? Snýst hann um einhvern þann beina þátt umhverfismála sem varða fiskeldi á Vestfjörðum eða Austfjörðum? Snýst hann um upplýsingar um mengun af fiskeldi, um umhverfisóvænan búnað? Snýst hann um vanmat á erfðamengunarhættu af opnu sjókvíaeldi? Nei, hann snýst um ekkert af þessu. Hann snýst um vöntun á tilteknum þáttum sem venjulega eru í öllum skýrslum um mat á umhverfisáhrifum. Það er mín reynsla. Ég hef tekið saman nokkrar slíkar skýrslur og þær hafa alltaf innihaldið valkostina alla, líka þá sem myndu teljast óraunhæfir.

Í þessa skýrslu vantar umfjöllun um aðra kosti, jafnt um geldfiskaeldi ef því er að skipta, um lokaðar kvíar eða hvað eina, kannski jafnvel um núllkostinn sjálfan. Þessir kostir sem þarna hefðu átt að vera voru taldir óraunhæfir af fyrirtækjunum sem skiluðu mati á umhverfisáhrifum jafnt og Skipulagsstofnun sjálfri. Um þetta snýst frumvarpið. Þetta er tilefnið. Tilefnið er formgalli sem hefur skapað óvissu og samfélagshættu af þessu umrædda fiskeldi. Það snýst eiginlega ekki um umhverfisáhrifin af því heldur um þessa formgalla.

Með frumvarpinu er opnað fyrir að matið á umhverfisáhrifum verði lagfært eða endurtekið og þessir tveir eða þrír eða fjórir kostir sem ekki eru þar, verði þar. Sem sagt: Það er verið að opna á röksemdir fyrir eða á móti hlutum og helstu öðrum kostum í fiskeldi. Það er verið að opna á frekari umfjöllun um einmitt umhverfisáhrif og raunhæfni annarra kosta í fiskeldi hver svo sem niðurstaðan verður. Þetta er auðvitað öllum til góða.

Umhverfismál sem slík, það sem ég var að telja hér upp, mengunin eða erfðaáhættan eða hvaðeina, eru þessu tiltekna frumvarp ekki skyldara en svo að þau koma fyrir í orðinu umhverfisáhrif, mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki gefinn neinn afsláttur í umhverfismálum með því að leyfa útgáfu bráðabirgðaleyfis til 10 mánaða með aðra 10 mánuði til vara, heldur er hér verið að koma til móts við galla á málsmeðferð sem hefur leitt til sviptingar leyfis fyrir rekstri sem ekki hefur verið stöðvaður í allnokkur ár vegna óæskilegra umhverfisáhrifa.

Frú forseti. Hvaða umhverfisáhrif eða umhverfismál ætti umhverfis- og samgöngunefnd að ræða sem tengjast þessu frumvarpi beint hér og nú, dag eða á morgun? Kæmist hún að niðurstöðu um eitthvað sem vantar í þetta frumvarp, sem veitir ráðherra heimild til að viðhalda leyfi fiskeldisstöðva, frumvarp sem ekki fjallar um fiskeldi sem slíkt heldur stjórnsýsluna og meðferð matsskýrslu sem snýr að því? Augljósir ágallar sem enginn getur borið á móti.

Atvinnuveganefnd er sú nefnd, sú fagnefnd, sem á að fjalla um frumvarpið. Umhverfisnefnd mun að sjálfsögðu fræðast áfram á sínum fundum um fiskeldi, hefur meira að segja verið að kalla eftir einum slíkum, og fræðast um lagarammana, kosti og galla. Og hún mun fjalla um fiskeldi í frumvarpi sem nú er í pípunum.

Ég sem Vinstri grænn þingmaður geri mér vel grein fyrir mikilvægi og um leið umhverfisáhættu hóflegs fiskeldis og ég geri mér grein fyrir gildi mótvægisaðgerða og geri mér grein fyrir nauðsyn þróunar í átt að umhverfisvænum atvinnuvegi. Ég sé fyrir mér þolmörk fiskeldis á Íslandi, sé fyrir mér þýðinguna fyrir byggðir og matvælaframleiðslu, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum, meira að segja í nafni umhverfismála.

Fiskeldi þróaðist í fyrstu hratt og án nægilegra girðinga og reglna og varð að helsta atvinnuvegi heils landshluta og sterkum atvinnuvegi í öðrum landshluta. Þá ábyrgð verðum við að axla og sjá til þess að sjálfbærni gildi í öllum þremur hlutum þess hugtaks, sem er náttúran, samfélagið og efnahagurinn, rétt eins og fyrri mælandi hér á undan mér komst að orði. Það tekur eflaust einhvern árafjölda, en gerist ekki með því að láta gallað regluverk stýra þróuninni.

Þetta frumvarp er verkfæri til þess að koma til móts við bæði fylgjendur og andstæðinga fiskeldis í opnum sjókvíum með því að opna fyrir endurskoðun á þeim hlutum í mati á umhverfisáhrifum sem varða það að mati kærunefndarinnar sjálfrar. Það er okkar hlutverk að sjá til þess að drepa þessari umræðu ekki á dreif heldur taka til höndum og ræða vissulega allar helstu hliðar umhverfismála þegar tilefni er til varðandi fiskeldi og það gerist í næstu umferð. — Ég hef lokið máli mínu.