Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:34]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það eigi ekki að veita afslátt af umhverfismálunum. Það er ekki verið að gera það með þessu frumvarpi. Ég held að við hljótum að vera sammála um að kröfurnar til umhverfismála verða að vera ríkar. Hv. þingmaður sem hefur mikla reynslu kom inn á þessa valkosti og við upplifðum það líka í morgun í atvinnuveganefnd að þar var undirstrikað að það hefði verið til bóta að taka inn umræðuna um geldfiskinn og lokuðu kvíarnar og landeldið, það er ekki hluti af valkostunum, en hluti af því sem hefði verið gott að draga fram. Það eru akkúrat þær athugasemdir sem úrskurðarnefndin gerði og væntanlega gefst þá fyrirtækjunum svigrúm til þess að fara yfir það.

Það segir mér líka að það er ástæða fyrir því að umhverfisnefnd þingsins hljóti að skoða þessa þætti. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu og það þarf eiginlega að segja mér það tvisvar að þingmenn Vinstri grænna komi hér hver á fætur öðrum upp og segi að málið eigi ekki að fara til umhverfis- og skipulagsnefndar í þinginu. Það er auðvitað sérstakt. Það á enginn að vera viðkvæmur. Það er ekkert mál fyrir nefndirnar að funda saman.

Þá vil ég fá það alveg á hreint hvort hv. þingmaður sé mótfallinn því að þessar tvær nefndir fundi saman til þess að málið að mínu mati verði sem vandaðast. Ég held að það skipti mjög miklu máli að yfirbragð afgreiðslu þingsins verði trúverðugt, traustvekjandi, þannig að allir beri traust til þessarar afgreiðslu okkar, ekki síst að það auki trúverðugleika á öllu lagaverki í kringum fiskeldið. Það er mín fyrri spurning.