Bráðabirgðaútgáfa.
149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Ég mæli hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008 (rekstrarleyfi til bráðabirgða).

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur P. Erlingsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvegaráðuneyti, Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og aðstoðarmann hans, Orra Pál Jóhannsson, Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, einnig Jóhannes Karl Sveinsson, Kristínu Haraldsdóttur og Trausta Fannar Valsson.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 21. gr. c laga um fiskeldi og er frumvarpinu ætlað að lagfæra þann annmarka á gildandi lögum að ef rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi er eina úrræði Matvælastofnunar að stöðva starfsemina. Ákvæðið er fortakslaust um það að ef rekstrarleyfi er ekki í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina, jafnvel með atbeina lögreglu.

Í frumvarpinu er ráðherra veitt heimild til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða ef umsókn berst innan tilskilins tíma og skal leyfið vera efnislega innan marka þess leyfis sem áður var í gildi.

Við meðferð málsins í nefndinni var vísað til Árósasamningsins og því velt upp hvort hætta væri á að lagasetning sem þessi stríddi gegn honum eða drægi úr möguleikum almennings til að koma að ákvörðunum á sviði umhverfismála. Nefndin bendir á að í hinu nýja ákvæði felst einungis bráðabirgðaúrræði auk þess sem kveðið er á um það að rekstrarleyfið skuli vera efnislega innan marka leyfisins sem var áður í gildi. Einnig bendir nefndin á að ráðherra getur sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo sem nánar greinir í 8. málsl. 1. gr. frumvarpsins.

Nefndin leggur til viðbót við 1. málsl. 1. gr. frumvarpsins í því skyni að afmarka nánar gildissvið þess og bætir þar við orðunum „vegna annmarka á leyfisveitingu“. Einnig leggur nefndin til lítils háttar breytingar á orðalagi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu. Hún ásamt Smára McCarthy hefur þó fyrirvara á málsmeðferð í þinginu og bendir á að þessi breyting komi ekki í veg fyrir að tekin verði auðlindagjöld í fiskeldi þó að þau leyfi séu til bráðabirgða.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Inga Sæland, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigurður Páll Jónsson og Smári McCarthy, með fyrirvara.

Þá kynni ég hér breytingartillöguna við frumvarpið.

1. Við efnismálsgrein 1. gr.

a. Á eftir orðinu „ráðherra“ í 1. málsl. komi: vegna annmarka á leyfisveitingu.

b. Í stað orðanna „hins niðurfellda leyfis“ í 1. málsl. komi: þess leyfis sem var fellt úr gildi.

c. Í stað orðanna „fellt niður“ í 1. málsl. komi: fellt úr gildi.

2. Í stað orðanna „sem féllu úr gildi“ í 2. gr. komi: sem voru felld úr gildi.

Þannig liggur málið fyrir og það hefur fengið mikla og góða efnislega umræðu í atvinnuveganefnd. Eins og ég ítrekaði í ræðu hér í dag er mjög brýnt að ljúka þessu máli með þessum hætti. Ég tel að þetta mál standist alla skoðun og mjög brýnt að ráðherra hafi úrræði til þess að mæta því og geta veitt þetta bráðabirgðaleyfi ef þörf er á. Það er mjög gott að það sé gert í almennri lagasetningu og hefði gjarnan mátt gerast fyrr til að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi.