Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er svolítið brugðið að heyra svar hv. þingmanns. Ég geri mér fulla grein fyrir alvarleika málsins og hef lagt til tvær tillögur hér á þinginu í dag, að annars vegar verði farin sú leið, sem lögð er til af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, að stjórnvaldið stöðvi starfsemi og ráðherra fresti þeim réttaráhrifum til þess að tryggt sé að þessi fyrirtæki geti starfað áfram meðan unnið er á annmörkum á leyfisveitingunni. Hins vegar er sú leið að við samþykkjum ákveðið bráðabirgðaákvæði en förum ekki í almenna lagasetningu sem er haldin þessum annmörkum.

Nú rak ég augun í þetta rétt áðan, að hér er verið að tala um að lög þessi öðlist gildi og taki jafnframt til rekstrarleyfa sem féllu úr gildi fyrir gildistöku laganna. Þá spyr maður: Rekstrarleyfa? Í skýringum með ákvæðinu er einfaldlega sagt að í ákvæðinu sé sérstaklega tekið fram að lögin taki jafnframt til rekstrarleyfa — í fleirtölu — sem féllu úr gildi fyrir gildistöku laganna. Þess vegna spyr ég eðlilega: Er um einhver önnur rekstrarleyfi að ræða en þau sem verið er að fjalla um hér fyrir vestan?

Við vitum það ekki. Hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar veit það ekki. Ég held að það sé algerlega útilokað annað en að við fáum upplýsingar um það. Á þetta við um aðra? Mögulega einhverja sem hafa misst leyfin út af öðru en lagatæknilegum annmörkum? Við verðum að fá svör við því hér á Alþingi.