149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:38]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú höfum við í dag, og bara í dag, verið að ræða um þetta mál. Þetta er stórt mál, skiptir miklu máli. Það skiptir miklu máli að við björgum þeim verðmætum sem bjargað verður og gerum það sem er eðlilegt að gera til að forða samfélagslegu stórslysi. Það er samt alltaf spurning hvernig farið er að.

Ég verð að segja að málsmeðferðin hér hefur verið óásættanleg, í enn eitt skiptið vegna þess að verið er að forgangsraða því að klára málið á einum degi umfram alla aðra hagsmuni. Það hefur leitt af sér m.a. það að fyrir örfáum mínútum uppgötvaðist hugsanlegur galli sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir benti á. Við fáum sem betur fer vonandi góð svör úr ráðuneytinu sem allra fyrst. (Gripið fram í.) Er búið að …? (Gripið fram í.) Ég vil fá frá ráðuneytinu, að breytingin gildi eingöngu fyrir þessi tvö leyfi.

Gott og vel. Þetta er eitt af því sem hefði átt að uppgötvast ef málið væri í eðlilegu þinglegu ferli en ekki þessu hraðaferli núna. Það að við séum trekk í trekk að keyra mál í gegn á þetta miklum hraða leiðir af sér lélega löggjöf. Leiðir af sér að mistök verða gerð. Að fólk lætur koma sér á óvart þegar hlutirnir eru bilaðir.

Það er algerlega skýrt að svona redding, og þetta er redding, verður að vera til bráðabirgða. Það er af þeirri ástæðu sem þingflokkur Pírata leggur fram breytingartillögu sem hefur verið útbýtt sem snýst um að gera sólarlagsákvæði við þessa breytingu. Ótrúlega einfalt mál til þess að tryggja að þegar þetta verður tekið upp, og það á að koma frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra núna í nóvember, verði þetta atriði rætt í þaula, það verði ekki skilið eftir sem eitthvert aukaatriði á þeim grundvelli að það sé ekki beinlínis tekið fram í frumvarpinu sem kemur frá ráðherra þá.

Það er nauðsynlegt vegna þess að í dag fékk þetta mál auðvitað ekki að fara í umsagnarferli, fékk auðvitað ekki umsagnir frá öllum þeim hagsmunaaðilum sem gætu komist að annarri niðurstöðu og haft aðra skoðun en þeir tilteknu sérfræðingar sem voru kallaðir fyrir atvinnuveganefnd. Þeir sérfræðingar voru mestan part annaðhvort frá ráðuneytinu eða sérfræðingar sem höfðu unnið með ráðuneytinu að því að finna út úr þessu. Það var ekki einn einasti hlutlaus sérfræðingur sem kom fyrir nefndina.

Ég efast svo sem ekki um hæfni og skilning þeirra ágætu einstaklinga, lögfræðinga og annarra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. En það breytir því ekki að samkvæmt venjulegum, góðum stjórnsýsluháttum er fólk sem vinnur að verkefnum ekki fært um að dæma um ágæti þess verkefnis, hlutlaust. Þetta á að virka þannig.

Það verður að vera skýrt að þetta er til bráðabirgða. Við ætlum með einum eða öðrum hætti að taka þetta til umræðu núna í nóvember þegar frumvarp ráðherra kemur fram. Það er engu að síður nauðsynlegt að þetta verði lagað á einhvern hátt í dag. Ég er hlynntur því að við lögum þetta. Ég er auðvitað ekki hlynntur því að við vinnum þetta svona lélega, en gott og vel, við erum hér enn einu sinni og það er okkar skömm.

Við verðum að fara að taka okkur á og gera færri svona mistök. Ég segi: Ég mun vera hlynntur þessu máli að því gefnu að ég fái staðfestingu frá ráðuneytinu núna á næstu mínútum að þetta séu eingöngu þessi tvö leyfi sem er um að ræða. Annars er engin leið að vita hvað ég mun gera.