149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka öllum sem hafa tekið þátt í því að koma þessu máli í gegn í dag. Þetta hefur verið strangur dagur, en það var mjög mikilvægt að klára þetta mál. Ég er þakklátur fyrir hönd Vestfirðinga sem geta nú andað léttar. Börnin kætast í grunnskólanum á morgun, höfðu miklar áhyggjur í dag eins og kom fram í blöðunum. Ég held að þau geti litið bjartari daga fram undan.

Ég ætla líka að taka undir það sem hér var sagt af síðasta ræðumanni. Það er mikilvægt að styrkja þessar stofnanir sem eru að vinna að leyfismálum og utanumhaldi um fiskeldi á Íslandi. Það kom fram í nefndinni í morgun að það er mikið mannahallæri og vantar starfsfólk. Það kom t.d. fram, og mér finnst það gríðarlega mikilvægt að það komi fram hér í þessum ræðustól, að fulltrúar Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar gæti þess núna að þrátt fyrir þetta mál tefjist þær leyfisumsóknir sem þegar eru í gangi ekki frekar — út af þessu máli og þeim vandræðum sem hér hafa verið uppi en við erum vonandi að leysa.

Eins kom fram hjá fulltrúunum í nefndinni í morgun höfðu allar þessar stofnanir mótmælt valkostagreiningu og þeim kostum sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála setti fram í dómum sínum. Það er líka mikilvægt að þingið hugsi til þess að það verði að vera einhverjir kostir sem virkilega eru þá leið til betri vegar, ekki að nefndin geti farið fram á það, þegar reisa á vatnsaflsvirkjun, að kostir gufuaflsvirkjunar verði kannaðir á sama stað. Það gengur ekki.

Ég vil þakka ráðherranum, fólkinu í ráðuneytinu og þinginu fyrir að koma þessu máli í gegn í dag. Þetta var vel gert.