149. löggjafarþing — 16. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[23:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil segja við lok atkvæðagreiðslunnar að ég er þakklátur fyrir þann skilning sem þingið sýndi þeirri nauðsyn að bregðast skjótt við í ástandi sem í rauninni kom til við úrskurð úrskurðarnefndarinnar og leiddi í ljós verulega annmarka á lögum um fiskeldi á Íslandi. Ég geri mér fullljóst að þetta mál er undir mikilli pressu, dreg enga dul á það, en ég ítreka þakkir fyrir þann skilning sem þingmenn sýna því að það var og er brýn nauðsyn á að bregðast skjótt við.

Þessi mál voru komin í blindgötu. Með því verklagi sem Alþingi hefur viðhaft í dag er búið að opna þetta og það er ekki lengur botnlangi heldur opin gata sem gefur okkur færi á því að byggja áfram upp á Íslandi á grundvelli gegnsærrar og góðrar stjórnsýslu.