149. löggjafarþing — 16. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[23:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég sit hjá. Það er hvorki vegna þess að ég hafi ekki kynnt mér málið né vegna þess að ég hafi ekki skoðun á því. Þetta mál er ef til vill deginum ljósara fyrir fólkið sem þekkir mjög vel til málefnisins, fiskeldis og stöðunnar á sunnanverðum Vestfjörðum, og sömuleiðis fyrir það sem fengið hefur ítarlegri kynningar en ég hef haft völ á, sér í lagi stjórnarliðar. Ég veit hreinlega ekki hversu mikið sumir þingmenn hér inni hafa fengið af kynningum umfram það sem ég hef haft tök á að fá.

Jafnvel þegar við fjöllum mjög lengi um málið og jafnvel þegar við höfum tvær eða jafnvel þrjár vikur af umsagnarfresti þar sem við fáum fram mismunandi sjónarmið og tökum gesti fyrir nefnd og rökræðum hlutina þó nokkuð mikið í pontu gerum við samt sem áður mistök. Þegar við gerum hlutina svona hratt tel ég frekar miklar líkur á mistökum, alveg sama hversu vel er vandað til verka. Tíminn skiptir máli.

Það má vel vera að ég myndi greiða atkvæði öðruvísi ef ég væri í annarri stöðu og hefði tækifæri til að kynna mér málið betur, svo sem ef ég væri í stjórnarflokki. Það má vel vera. En undir þessum kringumstæðum (Forseti hringir.) sit ég hjá. Það felur ekki í sér að ég sé á móti málinu. Ég þarf einfaldlega meiri tíma en við höfum fengið hér í dag til að vinna svona mál almennilega. Ég legg til að langflestir sitji hjá.