149. löggjafarþing — 16. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[23:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Til hamingju, Alþingi, með að hafa brugðist eins vel við og þið gerðuð í dag. Mér er alveg sama hvort ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu, við náðum því markmiði sem að var stefnt, að koma til móts við brothætta byggð á Vesturlandi, á sunnanverðum Vestfjörðum, eina af þeim brothættu byggðum sem hafa verið búnar til í boði stjórnvalda. Með framsali kvóta á sínum tíma höfum við þurrkað út sjávarútvegsbyggðirnar allt í kringum landið. Það er í rauninni engin ástæða til að tala um hvernig þetta hefði átt að vera og hvernig það ætti að vera eða annað slíkt, hér erum við og það er í okkar valdi að breyta. Það kemur til með að koma hingað nýtt frumvarp og við skulum þá sýna þá takta sem við búum yfir og gera hlutina almennilega og með stæl, en meginmarkmiðið er að við erum búin að ná því sameiginlega sem að var stefnt. Heyr, heyr, Vestfirðingar. Við stöndum með landsbyggðinni í Flokki fólksins, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.