149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á sameiginlegum fundi velferðarnefndar og atvinnuveganefndar í morgun var fjallað um það ófremdarástand sem er á vinnumarkaði gagnvart fjölda fólks, þar sem er ill meðferð á fólki. Þetta hefur viðgengist allt of lengi, við þekkjum það, og virðist því miður vera orðið viðvarandi ástand.

Við fengum fjölda góðra gesta til að fara yfir þessi mál, félagsleg undirboð og mansal til hagnýtingar, starfsmannaleigur og vondan aðbúnað fjölda fólks í ósamþykktu, lélegu leiguhúsnæði á uppsprengdu verði. Það var meginlínan hjá öllum þeim gestum sem komu fyrir nefndirnar að mikilvægt væri að samræma aðgerðir og herða viðurlög og refsingar hjá þeim sem væru í raun síbrotamenn á vinnumarkaði. Þar er þetta erlenda verkafólk sérstaklega viðkvæmt. Oftar en ekki þekkir það ekki rétt sinn og hefur ekki burði til þess að berjast fyrir réttindum sínum við viðkomandi yfirmann.

Félagsmálaráðherra hefur skipað starfshóp til þess að koma með tillögur þessa efnis, til að bæta hér úr. Vonandi skilar sá hópur af sér góðum tillögum. Við megum ekki draga lappirnar í þessum málum. Það er augljóst að verkalýðshreyfingin hefur verið að berjast gegn þessu í langan tíma og fyrir liggja margar tillögur úr þeirri áttinni varðandi vinnumarkaðsmálin. Löggjafinn þarf að koma þar strax inn í. Við getum nefnt sem dæmi að fullnusta á keðjuábyrgð fyrirtækja þarf að ná yfir allan vinnumarkaðinn, alla aðila.

Efla þarf samræmt vinnustaðaeftirlit og heimila hert viðurlög. Taka þarf á mansali á vinnumarkaði og herða refsirammann gagnvart þeim sem brjóta á fólki, bæði varðandi vangreidd laun og að bjóða upp á óíbúðarhæft húsnæði á háu verði. Taka þarf á síbrotamönnum í kennitöluflakki — löggjafinn er búinn að glíma ansi lengi við það — og herða eftirlit með starfsmannaleigum svo að eitthvað sé nefnt.

Það vantar líka fjármuni til þeirra eftirlitsstofnana sem við höfum, eins og Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar, og til lögreglunnar og RSK. Ég tel að verið sé að stela af fólki þegar fólk með vinnuframlagi sínu fær ekki laun samkvæmt kjarasamningum. Það er hreinlega verið að stela af fólki í formi vinnuframlags viðkomandi fólks. Það verður að vera einhver refsirammi gagnvart þeim sem gera það síendurtekið.