149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðu í gærkvöldi urðu mér á mistök þegar ég var að lesa upp úr minnisblaðinu mínu þar sem ég hafði sett tvö s þegar ég ætlaði að tala um sérfræðingana að sunnan. Ég sagði óvart SS-sveitin fyrir sérfræðingana að sunnan. Það finnst mér mjög miður og hafi ég verið með eitthvert gáttlæti á þeirri stundu, sem var mjög alvarleg, stóð það ekki til. En ekki stóð á viðbrögðunum. Píratar stóðu hér upp og fóru að bendla mig við stormsveitir þriðja ríkisins. Þegar þeir tala um mig í þessum sal er það eins og bóndi blístri á hlýðinn smalahund þegar Stundin og Kjarninn í þessu tilfelli og oftast Ríkisútvarpið taka upp eftir þeim það sem ég mismælti mig hér í gær og fara að bera mig saman við morðóða hunda frá Þýskalandi. Ég verð að segja að það er þyngra en tárum tekur að þurfa að bera svoleiðis.

Það var ekki vitnað í það í þessum fjölmiðlum þegar Pia Kjærsgaard kom hingað í sumar, var fulltrúi danska þingsins á 100 ára afmælisfundi Alþingis á Þingvöllum á Alþingishátíðinni. Þá lét einn af Pírötum hafa það eftir sér þegar hann mótmælti komu hennar að hún hefði sömu skoðanir og Adolf Hitler og þess vegna væri sjálfsagt að mótmæla henni, hún hefði sömu skoðanir og Adolf Hitler. Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur.

Sömu aðilar tala um þjóðhöfðingja vestrænna ríkja sem eru kosnir af fólkinu og líkja þeim við Mussolini og þennan títtnefnda Adolf Hitler. Svo hafa þeir alls konar flugumenn úti í bæ sem bera út ófögnuð um mann. Þetta er fólkið sem stendur upp í þessum sal trekk í trekk, ber upp á mann lygar, hefur sagt að ég væri þjófur, hafi stolið peningum af þinginu — og þau þurfa ekki að standa neinum reikningsskil. Svo hafa þau flugumenn úti í bæ sem taka ósómann úr fjölmiðlunum og senda yfir mann á fésbókinni og víðar.

Mér finnst bara óboðlegt (Forseti hringir.) fyrir þingið að það skuli vera talað svona um þingmenn, að þeir séu SS-menn.