149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Skálatún, heimili fólks með þroskahömlun, er nánast gjaldþrota. Í Skálatúni njóta nú þjónustu um 40 einstaklingar en heimilið hefur verið án samnings við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ síðan í lok árs 2014. Mosfellsbær greiðir eftir úreltum og ógiltum samningi en Skálatún hefur ítrekað óskað eftir nýjum úrbótasamningi sem fylgi verðlagi, launaþróun í landinu, sem og uppfærðu SIS-mati. Samkvæmt lögum skal tryggja fötluðu fólki ákveðin gæði og þjónustu af hálfu hins opinbera og bera sveitarfélög ábyrgð á því að fatlað fólk fái þá þjónustu og þau eiga að greiða kostnaðinn.

Nýr samningur við Skálatún hefur ekki verið gerður og hefur Skálatún gengið svo á sjálfsaflafé sitt og varasjóð að hann er næstum uppurinn og heimilið að fara í þrot. Það er athyglisvert að greiðslur úr jöfnunarsjóði til Mosfellsbæjar eru verðtryggðar. Það er hins vegar svo að sá þjónustusamningur sem Mosfellsbær hefur greitt eftir og hefur verið ógildur í fjögur ár hefur hvorki fylgt verðlagsþróun né launaþróun í landinu. Mér finnst áhyggjuefni að svo virðist sem ekkert eftirlit sé með því fjármagni sem ríkisvaldið úthlutar og það vegna lögbundinna verkefna, hér málefna fatlaðra. Eftirlit ætti að mínu mati bæði að snúa að því að samningar séu gerðir og að því að fjármagnið skili sér til þeirra málaflokka sem um ræðir.

Herra forseti. Ég vil einnig leyfa mér að gera að umtalsefni hjúkrunarmál í Kópavogi. Ár eftir ár hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi óskað eftir fjárheimildum vegna nýrra hjúkrunarrýma, en þau hafa samning þar um, og einnig vegna fjölgunar dagdvalarrýma. Kópavogsbær skrifaði undir samning við velferðarráðuneytið um byggingu hjúkrunarheimilis árið 2016, en um er að ræða 64 rými við Boðaþing. Fullkomin kyrrstaða ríkir í málinu en bæjaryfirvöld hafa lýst sig reiðubúin til að taka verkefnið yfir, enda bíða nú um 60 manns eftir rými. Þá er það svo að rúmlega 140 (Forseti hringir.) einstaklingar bíða eftir dagvistun. Það er eitt besta úrræðið til að koma á móts við eldra fólk til að halda við færni þess og þrótti. Ég furða mig á því að miðað við (Forseti hringir.) að Kópavogsbær vilji ganga strax í verkið komi engin svör um það.