149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í vikunni hefur þingflokkur Samfylkingarinnar fundað með verkalýðshreyfingunni. Eitt sem bar þar á góma var ójöfnuður eigna í samfélaginu og langar mig að gera hann að umtalsefni.

Í fyrsta lagi á 1% landsmanna meiri hreinar eignir en 80% Íslendinga. Þetta 1% er um 2.000 fjölskyldur og á hver um sig um 300 millj. kr. í hreina eign.

Nú skulum við minnka aðeins hópinn og líta á hvað ríkasta 0,1% landsmanna, sem er um 200 fjölskyldur, á í hreina eign. Sérhver fjölskylda þarna á meira en 1.000 millj. kr. í hreina eign, sem er meira en 1 milljarður.

Um 5% landsmanna á næstum jafn mikið í nettóeignum og hin 95%. 5% versus 95%.

Í öðru lagi rann tæplega helmingur allra hreinna eigna sem varð til á árinu 2016 til ríkasta 10% landsmanna.

Meira en 11% af nýjum auði sem varð til árið 2011–2016 rann til ríkasta 1% landsmanna.

Í þriðja lagi eiga tíu, einungis tíu, eignamestu einstaklingar landsins tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum sem eru í höndum einstaklinga.

Í fjórða lagi er Ísland samkvæmt nýrri skýrslu frá Oxfam langneðst allra Norðurlandanna þegar kemur að aðgerðum til að berjast gegn ójöfnuði. Þetta er skýrsla sem birtist í fyrra.

Herra forseti. Það er ljóst að á Íslandi búa tvær þjóðir. Sú þróun er hættuleg, ósanngjörn og hún dregur úr hagvexti. Aukinn jöfnuður er bæði réttlætismál en einnig góð hagfræði.