149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Alvarleiki hlutanna í loftslagsmálum blasir við í kolsvartri skýrslu um loftslagsmál. Þar kemur fram að árlega þurfi að verja 2,5% af heimsframleiðslu til aðgerða á sviði loftslagsaðgerða til ársins 2035 ef afstýra á því að meðalhiti á jörðinni hækki um meira en 1,5°.

Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál.

Það er fagnaðarefni að við hér á Íslandi erum að taka hlutina alvarlega. Með fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 er gerbreyting á því fjármagni sem við ætlum að verja til aðgerða í loftslagsmálum. Loftslagsáætlunin okkar er fullfjármögnuð. En það er jafnframt ljóst að eftir því sem fram vindur munum við, samkvæmt þessari skýrslu, frekar þurfa að auka í en draga úr. Það er veruleikinn sem við blasir.

Þó svo að okkur finnist fjármagnið mikið og háar upphæðir sem verja þarf í loftslagsaðgerðir tel ég ágætt að setja þá upphæð í samhengi. Kostnaðurinn við að bregðast við loftslagsbreytingum er álíka mikill og heimsbyggðin eyðir í hernaðarútgjöld. Það finnst mér gríðarlega mikið umhugsunarefni. Við eigum að vita af þessu í allri umræðu, um allt það fjármagn sem þarf að eyða í loftslagsaðgerðirnar, að peningarnir eru til. Það myndi hafa gríðarlega góð áhrif (Forseti hringir.) á alla heimsbyggðina ef við myndum flytja þetta fjármagn úr hernaðarútgjöldum og yfir í loftslagsmálin.