149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Allt bendir til þess að langvinnu góðæristímabili sé lokið. Nú eru öll teikn á lofti um það. Það er tekið að hægja á verulega hratt í hagkerfinu, ferðaþjónustan glímir við mikinn vanda og hann sagður síst ofmetinn í þeirri opinberu umræðu sem um ferðaþjónustuna hefur farið fram að undanförnu.

Þetta sjáum við líka í fregnum af rekstrarvanda fyrirtækja, uppsöfnun og því sem við sjáum núna síðast, mikilli veikingu krónunnar. Hún hefur veikst um 10%, tiltölulega hljóðlega þó, á réttum mánuði gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum.

Þetta leiðir auðvitað hugann að spurningu, þegar við stöndum hér á þeim tímamótum að minnast þess að tíu ár eru liðin frá hruni: Hvað höfum við lært? Vissulega hefur margt lærst. Heimilin hafa hagað sér af mun meiri ábyrgð, sýnt meiri ráðdeild, skulda minna en þau gerðu fyrir áratug síðan og hið sama má segja um flest fyrirtæki landsmanna sem hafa gengið varlegar um gleðinnar dyr nú en fyrr.

En horfum inn í þennan sal og veltum fyrir okkur hvað við höfum lært hér. Hverju höfum við breytt? Hver voru stærstu vandamálin sem við glímdum við hér fyrir áratug og bent var á að væru ein af meginorsökum þess hversu illa fór þá?

Meðal annars var bent á lítinn óstöðugan gjaldmiðil og tilheyrandi kostnað af honum fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Það var bent á óábyrga hagstjórn af hálfu hins opinbera sem þandi, líkt og svo oft áður, út útgjöld ríkisins á sama tíma og mikil þensla var í hagkerfinu hér heima fyrir. Þegar maður horfir yfir farinn veg undanfarin ár hefur nákvæmlega það sama gerst. Útgjöldin hafa verið þanin mjög mikið á tímum þenslu og raunar stefnt að einhvers konar Íslandsmeti í því í ríkisfjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar.

Ekkert hefur verið gert með grunnvanda krónunnar. Engu hefur verið breytt sem heitið getur í peningastefnunni, hvernig við ætlum að glíma við þennan óstöðugleika myntarinnar eða vaxtamuninn sem henni fylgir. Þar getum við ekki bent eitthvað annað. (Forseti hringir.) Við getum ekki bent á Seðlabanka, við getum ekki bent á neina aðra en okkur sjálf. Það er á okkar ábyrgð að taka á þessum vanda og það er sorglegt að sjá að það hefur ekki verið gert.