149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Sjónvarpsþátturinn Kveikur vakti landsmenn upp af værum blundi um þann níðingshátt sem fyrirfinnst á íslenskum vinnumarkaði. Það lögbrot sem felst í því að greiða fólki á vinnumarkaði langt undir lágmarkslaunum er staðreynd á Íslandi, en þessi níðingsháttur virðist einna helst beinast gegn erlendu vinnuafli sem við getum helst þakkað þann mikla hagvöxt sem hér hefur ríkt undanfarin ár. Önnur merki þessa níðingsskapar er að ofrukka starfsfólk fyrir ýmislegt, svo sem húsnæði, mat, nauðsynleg tæki og tól til vinnu, eða akstur. Það þarf að fara í það án tafar að búa til regluverk sem kemur í veg fyrir svona framkomu, en þar er um að ræða viðurlög við brotum.

Í lögum höfum við fjölmörg dæmi um viðurlög við brotum. Við skattalagabrotum þarf hinn brotlegi að endurgreiða tvöfalda þá fjárhæð sem svikist var um að greiða í upphafi. Við samkeppnislagabrotum þarf að greiða sekt sem nemur 10% af veltu fyrirtækisins. Ný persónuverndarlöggjöf kveður á um einna hæstu sektarfjárhæðir sem þekkist í íslenskum lögum, eða frá 100.000 kr. upp í 2,4 milljarða kr. í alvarlegustu brotunum. Þetta eru skýr dæmi um viðurlög sem hafa raunverulegan fælingarmátt í för með sér ef brotið er gegn reglum. En ekkert slíkt er um að ræða þegar brotið er gegn starfsfólki. Þá endurgreiða menn í mesta lagi mismuninn til starfsmannsins en greiða engar sektir. Sömu aðilar geta svo jafnvel mætt á morgun með nýja kennitölu og haldið áfram.

Kæru þingmenn. Boltinn er hjá okkur. Við sýndum það svo sannarlega í gær að við getum ýmislegt þegar viljinn er fyrir hendi. Förum í aðgerðir. Gerum þetta saman. Stöðvum þennan níðingsskap af alvöru með viðurlögum.