149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna afgreiðslu Alþingis í gær varðandi fiskeldið á Vestfjörðum þannig að kominn sé ákveðinn stöðugleiki í byggðirnar þegar kemur að þeim málaflokki. Þetta er rétt byrjunin á öllu saman. Það er kannski til skamms tíma en á næstu vikum verður lagt fram frumvarp um fiskeldið og við munum ræða það til langs tíma.

Það sem mig langar helst að tala um er stóra samhengi hlutanna. Við fengum í gær á fund okkar í atvinnuveganefnd fulltrúa Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar. Það er einhvern veginn þannig að þegar maður ræðir við fulltrúa slíkrar stofnana sér maður hvað þeir eiga í miklum vandræðum með þetta. Það kom klárlega fram á fundunum í gær að til að mynda fulltrúar Skipulagsstofnunar hafa efasemdir um ferlið. Það kemur í ljós þegar maður spyr hvernig við sinnum því miðað við Evrópu að við erum á allt öðrum stað í þeim ferlum. Allar kæruleiðir og seinkanir vegna kæruferla hjá okkur eru miklu erfiðari en almennt í hinu evrópska umhverfi, sem við viljum oft bera okkur saman við.

Það eru tvö ár síðan mikið vandamál var með framkvæmdaleyfi vegna Þeistareykjalínu 1. Varð heilmikið uppnám um tveggja vikna skeið vegna hennar og framkvæmdar á Bakka þar sem um var að ræða tugi milljarða. Það líða ekki tvö ár þangað til svipað ástand er uppi. Það var viðurkennt fyrir nefndinni í gær að margt líkt er með þeim ferlum.

Ég tel því að nauðsynlegt sé að endurskoða ferlana sem við nýtum okkur, eins og mat á umhverfisáhrifum. Það er full þörf á að endurskoða slíka ferla, líka þegar um er að ræða raforkukerfi landsins, flutningskerfið. (Forseti hringir.) Það er líka rétt að skoða eðli úrskurðarnefndanna (Forseti hringir.) og hvernig störfum þeirra er háttað.