149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Rétt handan við hornið hér í Austurstræti er vinnustaður sem var settur í uppnám með valdníðslu hins opinbera fyrir næstum því ári. Ég er að sjálfsögðu að tala um dagblaðið Stundina.

Það sem ég held á hér er kolólöglegt efni. Það er búið að setja lögbann á það.

Þetta þing hefur ekki brugðist við því í heilt ár. Í gær sýndum við og sönnuðum að hægt er að koma saman á nokkrum neyðarfundum og skella í gegn lögum til að koma í veg fyrir að vinnustaður sé settur í uppnám. Við getum vel gert eitthvað svipað í þessu máli og hefðum kannski átt að gera það fyrir jól í fyrra. En við gerðum það ekki. Og ég held að við vitum öll ástæðuna fyrir því. Við vitum hana öll. Við sjáum hana hér á forsíðu blaðsins.

En við getum losað okkur við þennan svarta blett. Það getum við gert með því að breyta lögunum umsvifalaust, ekki bíða, ekki bíða og setja þetta í nefnd aftur og aftur, heldur bara einfaldlega gera þetta eins og við gerðum í gær, hittast á nokkrum fundum og skella þessu í gegn. Við gætum jafnvel bara gert það í kvöld. Það væri ekkert mál, virðulegi forseti.