149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér ríkisfjármál og útgjaldaþróun. Fjárlaganefnd er nú í óða önn að taka á móti gestum og fara yfir umsagnir um fjárlagafrumvarpið. Við áttum fund með Viðskiptaráði nú fyrr í dag og í umsögn þess kemur m.a. fram að lítið megi bregða út af svo tekjuforsendur bresti og því sé vont að spenna útgjaldabogann á sama tíma jafn hátt og ráðgert er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019.

Slíkar ábendingar um þróun ríkisútgjalda og tæpan afgang má finna í fleiri umsögnum og var áberandi í umsögnum við ríkisfjármálaáætlun og ríkisfjármálastefnu.

Í fjárlagafrumvarpi 2019 er áætlað að auka heildarútgjöld um 55 milljarða, frumútgjöld um 67 milljarða. Rammasett útgjöld á tímabilinu 2011–2018 hafa aukist um rúma 105 milljarða eða 17,5% að raungildi. Þar hafa veigamestu málefnaflokkar velferðarráðuneytisins tekið langmest til sín. Vegur þar þyngst hækkun til málefna aldraðra sem nemur um 37 milljörðum, mest við breytinguna 2016. Um 19 milljarðar eru vegna örorku og málefna fatlaðs fólks, 15 milljarðar vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og tæpir 11 milljarðar kr. vegna hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu og sömuleiðis tæpir 11 milljarðar til sjúkrahúsþjónustu.

Af þessum 105 milljörðum fara samtals 93 milljarðar til málaflokka velferðar. Ef við skoðum bara kerfislægan vöxt á þessum sviðum mun þessi þróun halda áfram. Nú erum við að fara að ræða samgönguáætlun í dag og þar sjáum við gífurlega fjárþörf á næstu árum til að mæta uppsafnaðri og reglulegri viðhaldsþörf og nýframkvæmdum. Þessi þróun segir okkur að algerlega nauðsynlegt og óhjákvæmilegt er að við förum í gagngert endurmat (Forseti hringir.) á útgjöldum á öllum sviðum ríkisrekstrar og eflum greiningargetu og eftirfylgni fyrir raunhæfa og skynsamlega ráðstöfun fjármuna í takt við verðmætasköpun.