149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Íslenskt samfélag þróast og breytist. Á síðustu árum hefur orðið nánast bylting þegar horft er til fjölda innflytjenda, flóttamanna og erlends vinnuafls á Íslandi. Þá hefur íslenskum ríkisborgurum sem eru af erlendum uppruna fjölgað mikið og hafa bæst í þann hóp milli 700 og 800 manns árlega á síðustu árum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru starfandi innflytjendur að jafnaði um 32.500 árið 2017, þ.e. 16,5% af öllum starfandi. Í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra, kemur fram að erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatta á Íslandi fjölgaði um nálægt 8.000 milli áranna 2016 og 2017, um 27,9%. Á sama tíma fjölgaði þeim íslensku ríkisborgurum sem greiða skatta hérlendis um tæplega 1.200.

Alls greiddu tæplega 45.000 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi í fyrra sem þýddi að þeir voru 15,1% allra einstaklinga sem skráðir voru í skattagrunnskrá það árið. Árið áður voru þeir 12,2%.

Allt sýnir þetta svart á hvítu að samsetning þeirra sem búa og starfa á Íslandi á hverjum tíma hefur gjörbreyst. Hingað til lands hefur streymt mikill mannauður sem hefur gert íslenskt samfélag auðugra og lagt sitt af mörkum til uppbyggingar og framþróunar.

Herra forseti. Því miður höfum við vanrækt skyldu okkar til þess að taka vel á móti öllu þessu fólki og kynna því réttindi sín og skyldur en ekki síst að upplýsa um samfélagsgerð okkar, helstu stofnanir, samtök og stjórnkerfi.

Umræða síðustu daga sýnir, svo að ekki verður um villst, að auk þessarar vanrækslu viðgengst hér hrein og bein misbeiting á stöðu og vankunnáttu sem er okkur öllum (Forseti hringir.) til háborinnar skammar.

Herra forseti. Þessi mál verðum við að taka föstum tökum — og það strax. Og þá dugar ekki bara að skipa starfshóp um starfshóp um starfshóp.