149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Gærdagurinn á þinginu fór í neyðarviðbrögð við skakkaföllum sem sunannverðir Vestfirðir voru að verða fyrir vegna þess að of mörg egg voru í einni körfu. Það er alltaf hættulegt þegar svona stór hluti samfélags reiðir sig á fáein fyrirtæki og mjög takmarkaða atvinnuvegi. Það er gott að verið er að byggja upp þessa atvinnuvegi, en þeir verða að vera fleiri. Þegar maður skoðar hvers vegna atvinnuvegir víða um land, og raunar í landinu í heild, eru jafn einhæfir og raun ber vitni þá eru aðallega tvær skýringar sem ég finn. Annars vegar er það tilhneigingin til þess að allir stökkvi á vagninn þegar ný hugmynd lítur út fyrir að geta gengið vel, en það er tilhneiging sem ég býst við að muni skolast út úr þjóðarsálinni þegar okkur fjölgar og þegar samskipti okkar við heiminn verða margslungnari. Við erum enn ung þjóð.

Hin skýringin er kerfislæg. Það er mjög erfitt fyrir fólk að gera nýja hluti á Íslandi. Þeir sem vilja hefja rekstur fyrirtækja, einkum í nýsköpunargeiranum, þurfa að ganga í gegnum fáránlegar flækjur og glíma við ótrúlegustu vandamál til að ná árangri. Það er t.d. rosalega dýrt að stofna fyrirtæki á Íslandi. Ég vona að hugmyndir um að laga það, í efnahags- og viðskiptanefnd, beri árangur, en það verður að laga.

Það er líka erfitt að nálgast fjármagn. Það eru tiltölulega fáir fjárfestar. Það eru hlutfallslega fá fyrirtæki sem skrá sig á hlutabréfamarkað. Það eru arðsemiskröfur frá fjárfestum sem eru líka mjög háar. Samkeppnissjóðir eru allt of litlir og þeir eru mjög oft máttvana. Fjárfestingar á Íslandi til rannsóknar og þróunar námu bara 2,16% af vergri landsframleiðslu árið 2016.

Stofnendur fyrirtækja þekkja öll þessi vandamál og fleiri vandamál. Það er hlutverk okkar á Alþingi að ryðja sem flestum þessara vandamál úr vegi því að í samfélögum þar sem hægt er að nýta tækifærin gerast stórkostlegir hlutir. En við verðum að hætta að gera sjálfum okkur erfitt fyrir. Við verðum að draga úr þessari samfélagslegu áhættu. Við verðum (Forseti hringir.) að laga lögin. En ef við stöndum okkur vel þá getum við á fáum árum með litlum tilkostnaði staðið öðrum (Forseti hringir.) þjóðum framar sem stökkpallur framtíðarinnar.