149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir með hv. þingmönnum sem hafa viðrað í ræðum sínum áhyggjur af fólki sem vinnur hér, kemur erlendis frá og vinnur fyrir íslensk fyrirtæki en er brotið á.

Okkur hafa borist fréttir um að víða sé brotið á erlendu starfsfólki. Erlendir ríkisborgarar eru sennilega um 40 þús. manns á Íslandi í dag og um 20% af vinnumarkaði. Það segir okkur að ekkert atvinnuleysi er á Íslandi. Íslandi, eða okkur, gengur vel.

Meðferðin á sumu fólki sem kemur hingað til starfa er vægast sagt skammarleg af hálfu nokkurra fyrirtækja, samanber fréttir sem við höfum lesið nýlega. Taki þeir til sín sem eiga.

Gerviverktaka er eitt af þeim formum sem einstaka fyrirtæki hafa nýtt sér til að lækka kostnað. Skyldur „verktakans“ eru hins vegar þær sömu og launamanns. Réttindin eru fyrir borð borin. Fyrirtækið stjórnar vinnutíma einstaklingsins, stjórnar hver vinnur verkið, hvar og hvernig. En gerviverktakinn er hins vegar hlunnfarinn um til að mynda lífeyrissjóð, tryggingar, veikindarétt, fæðingarorlof og orlof, svo eitthvað sé nefnt.

Ríki og sveitarfélög verða af gríðarlegum tekjum í formi skattfjár.

Fyrir réttu ári síðan var háð hér kosningabarátta vegna tilvonandi alþingiskosninga og gerðu Vinstri grænir að umtalsefni að um 80 milljarðar lægju í skattkerfinu í hinu svarta hagkerfi. Þeir liggja þar.

Innviðir og uppbygging samfélagsins njóta ekki framlaga vegna fjárskorts og samt sem áður liggja slíkar fjárhæðir ósnertar á meðan við brjótum á réttindum launafólks.

Ég skora á stjórnvöld og Alþingi að taka þau mál föstum tökum og standa vörð um heilbrigða samkeppni (Forseti hringir.) á vinnumarkaði, heilbrigða samkeppni á markaði fyrirtækja, standa vörð um réttindi launþega og standa vörð um Ísland.