Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögum um samgönguáætlanir. Önnur er hin stefnumarkandi samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og hin er aðgerðaáætlun fyrir næstu fimm ár, 2019–2023, sem er þar með hluti af og innan ramma hinnar stefnumarkandi áætlunar.

Undirbúningur vinnunnar hófst eftir áramót og var við vinnuna haft samráð við atvinnulíf og sveitarfélög. Samráðsfundir voru haldnir í öllum landshlutum og samgönguþing síðasta vor. Samgönguráð vann í hendur ráðherra tillögu að samgönguáætlun 2019–2033 ásamt tillögu að aðgerðaáætlun 2019–2023.

Tillögurnar sem hér eru lagðar fram eru í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera, niðurstöður starfshópa samgönguráðs, niðurstöður fyrirliggjandi rannsókna og niðurstöður víðtæks samráðs. Umhverfismat áætlunarinnar sem unnið var samhliða tillögunni hafði einnig áhrif á stefnumótunina.

Samgönguáætlun er nú með breyttu sniði frá fyrri áætlunum sem er fyrsta skrefið til að gera efnistök hennar styttri og hnitmiðaðri sem hefur mælst vel fyrir. Í fyrsta skipti er hún í samræmi við væntanlegar fjárveitingar, fjármálaáætlun 2019–2023 sem var samþykkt á Alþingi sl. vor. Samgönguáætlun er því ekki lengur ófjármagnaður óskalisti, samgönguáætlun er raunhæft plagg um framkvæmdir sem hægt er að ráðast í á næstu árum og er ég hér að vísa til fimm ára áætlunarinnar. Með því fæst mikilvægur fyrirsjáanleiki í framkvæmdum næstu fimm árin. Til næstu 15 ára er síðan gert ráð fyrir að ríkisframlög verði alls um 604 milljarðar kr.

Það er hægt að tvöfalda þá upphæð sem rynni til vegakerfisins með gjaldtöku á ákveðnum mannvirkjum, svo sem brúm og göngum. Það er ein þeirra leiða sem er verið að skoða til að tryggja aukið fjármagn í vegakerfið. Þar horfum við til fyrirmynda okkar, til að mynda í Færeyjum en einnig til Noregs sem hefur sett á laggirnar nýja stofnun, svokallaða Nye Veier, og það er margt sem við getum lært af nágrönnum okkar, ekki síst Færeyingum, í gangagerð.

Nú er að störfum starfshópur sem ætlað er að leggja fram tillögur að nýjum fjármögnunarleiðum fyrir vegaframkvæmdir utan fjárlaga. Miðað er við að hann skili tillögum í janúar og á þingmálaskrá vetrarins er lagafrumvarp í samgönguráðuneytinu um fjármögnun sem þingið fær til umræðu og ákvörðunar seinna í vetur. Samþykki Alþingi að ráðast í nýjar fjármögnunarleiðir verður hægt að hraða mikilvægum vega- og jarðgangaframkvæmdum í áætluninni. Í henni eru nú þrjár framkvæmdir sem eru háðar skilyrði um sérstaka fjármögnun og er sérstaklega minnst á í texta samgönguáætlunar. Það eru Sundabraut, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall í Mýrdal og tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Í þessari áætlun er lagt til að stærstum hluta ríkisframlagsins, þ.e. 531 milljarði af þessum 604, verði varið til vegamála. Á fyrsta tímabili áætlunarinnar 2019–2023 er gert ráð fyrir að um 183,6 milljarðar verði til ráðstöfunar til vegamála, um 205,6 milljarðar á árunum 2024–2028 og 215,6 milljarðar frá 2029–2033. Samkvæmt fjármálaáætlun eru framlög til vegamála árin 2019–2021 aukin um tæpa 6 milljarða ár hvert fyrstu þrjú árin, þ.e. 2019–2021. Lagt er til að 10 milljörðum verði árlega varið í viðhald vegakerfisins fyrstu fimm árin. Eftir það verði framlagið hækkað um 2% árlega út 15 ára tímabilið.

Þá eru framlög til almenningssamgangna, viðhalds flugvalla og til hafnabótasjóðs aukin frá því sem verið hefur undanfarin ár.

Framlög til vegamála seinni tvö tímabilin hækka miðað við það að framlög til samgöngumála verði um 1,5% af landsframleiðslu sem er í samræmi við langtímameðaltalsframlag til þessa málaflokks ef við horfum aftur í tímann. Til upprifjunar hafa framlög til vegaframkvæmda verið hækkuð um þriðjung frá fjárlögunum 2017 á verðlagi hvers árs, úr um 17,7 milljörðum kr. í 23,5 milljarða í fjárlagafrumvarpinu. En mikið hefur vantað á að nægu fjármagni hafi verið varið í viðhald vegakerfisins undanfarin ár. Þar erum við að snúa til betri vegar. Fyrir tveimur árum voru framlög til viðhalds undir 6 milljörðum sem að mati Vegagerðarinnar hefur leitt til uppsafnaðs vanda sem á árinu var metinn nema allt að 60 milljörðum kr. Ríkisstjórnin setti rúmlega 8 milljarða í viðhald vegna fjárlaga ársins 2018 eins og Alþingi samþykkti og eins og sjá má í fjárlögum 2018. Þar til viðbótar ákvað ríkisstjórnin að bæta við 4 milljörðum vegna ástands vegakerfisins eins og það kom undan vetri síðasta vor til að bregðast við brýnustu viðhaldsþörfinni. Með öðrum orðum erum við með 12 milljarða á þessu ári sem við veitum til brýnna úrbóta, viðhalds og lagfæringa, til að tryggja umferðaröryggi sem best hringinn í kringum landið.

Sú áætlun sem hér er lögð fram felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið til næstu 15 ára. Mikilvægur grunntónn í aðgerðum áætlunarinnar er umferðaröryggi. Góðar samgöngur eru grundvallarforsenda fyrir öflugu atvinnulífi og kraftmiklu þjóðfélagi. Greiðar og öruggar samgöngur tryggja fólki og fyrirtækjum aðgengi að mörkuðum, opinberri þjónustu og afþreyingu. Samgöngur tengja saman byggðir og landshluta. Í tæknivæddu samfélagi þar sem þjónustan er oft og tíðum sérhæfð hátækniþjónusta er mikilvægt að aðgengi fyrir landsmenn sé gott hvar sem þeir búa.

Samgöngur eru jafnframt flókið og kostnaðarsamt viðfangsefni. Mikilvægi samgangna fyrir nútímasamfélag verður seint ofmetið. Öll samgönguuppbygging á landsbyggðinni er nauðsynleg til að styrkja byggðir landsins og um leið samkeppnishæfni þess. Uppbygging greiðra og öruggra samgangna á landsbyggðinni er fyrst og fremst byggðaaðgerð. Samgöngum geta einnig fylgt neikvæð áhrif á lífsgæði og umhverfi. Þannig hafa t.d. umferðarslys tekið allt of stóran toll og áhrif umferðar á umhverfið eru oft mikil og neikvæð.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að grunnnetið verði í lok tímabilsins uppbyggt fyrir utan alla hálendisvegi, þ.e. á þessu 15 ára tímabili sjáum við fyrir okkur að ljúka við það grunnnet sem við höfum verið að byggja upp. Áherslan er þess vegna á suðurhluta Vestfjarða. Umferðarþunginn á suðvesturhorninu, á leiðunum inn og út frá höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið langmest. Við sjáum að að afloknu þessu 15 ára tímabili verða umferðarmestu vegirnir, þ.e. Vesturlandsvegur, Suðurlandsvegur og Reykjanesbrautin, komnir með aðskilda akstursstefnu, annars vegar upp í Borgarnes, Vesturlandsvegurinn, austur að Hellu, Suðurlandsvegurinn, og tvöföldun Reykjanesbrautarinnar inn í flugstöð. Þetta tel ég gríðarlega mikilvægt til að tryggja umferðaröryggi á þessum vegum þar sem við sjáum alvarlegustu slysin og höfum séð síðustu ár.

Eins og ég minntist á áðan erum við líka að klára grunnnetið og þar er áherslan á Vestfirði. Í lok tímabilsins verður komin hringtenging Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum og uppbyggðum vegum yfir Dynjandisheiði með uppbyggðri tengingu yfir til Bíldudals. Með þessari nýju vegtengingu um göngin styttist leiðin um 27 km. Þá verður einnig kominn nýr uppbyggður vegur um sunnanverða Vestfirði alla leið til Patreksfjarðar. Með vegabótum áætlunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri, sem er á döfinni í ár og næstu ár, verður á þessu tímabili mikilvægu markmiði samgönguáætlunarinnar til langs tíma náð, þ.e. að tengja allar byggðir með yfir 100 íbúa með bundnu slitlagi.

Við viljum einnig horfa til annarra landshluta og þar með til að mynda að byggja upp nýjan veg um Öxi sem styttir leiðina milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða um meira en 70 km. Áætlunin gerir ráð fyrir að ráðist verði í göng til Seyðisfjarðar að loknum framkvæmdum við Dýrafjarðargöng og aðliggjandi vegakerfi. Það er starfandi starfshópur sem er að fara yfir málefni Seyðisfjarðaganga og undirbúa ákvörðun um framkvæmdina, m.a. um legu ganganna. Niðurstaða mun liggja fyrir um áramót.

Í samgönguáætlun má halda því fram að þriðja meginmarkmiðið sé að styrkja áfram og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi þó að þeir uppfylli ekki kröfur um burðarþol og veglínu. Lagt verður bundið slitlag á um 130 km af vegum á fyrsta tímabili. Þetta er mikilvægt að nefna hér vegna þess að lífsgæði felast í því að keyra um vegi sem á er bundið slitlag, til að mynda fyrir börn sem fara í skóla, þó að umferðin sé lítil. Einnig er lögð áhersla á að setja aukið fjármagn í að byggja upp þá tengivegi þar sem umferðin er mikil en það krefst þess að bæta við auknu burðarþoli, breikka vegi og hanna þá með tilheyrandi öryggiskröfum.

En það eru fleiri veikleikar í vegakerfi okkar. Til að mynda eru einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins 686, þar af 39 á hringveginum. Ein mikilvægasta framkvæmdin á fyrsta og öðru tímabili er ný brú yfir Hornafjarðarfljót og aðliggjandi vegir sem leiðir til um 11 km styttingar á hringveginum. Þá verða margar eldri, stærri brýrnar sem eru á hringveginum endurnýjaðar, svo sem brúin yfir Ölfusá, brúin yfir Jökulsá á Fjöllum, brúin yfir Lagarfljót, báðar brýrnar yfir Skjálfandafljót í Þingeyjarsýslum og brúin yfir Breiðdalakvísl austur við Kirkjubæjarklaustur.

Nýr vegur um Lón á þriðja tímabili mun stytta hringveginn um 4 km og fækka einbreiðum brúm á hringveginum um sex. Þá er gert ráð fyrir að á þessu fyrsta fimm ára tímabili fækki einbreiðum brúm á hringveginum um níu.

Aukning umferðar hefur leitt til aukinnar þarfar fyrir vetrarþjónustu, bæði vegna stækkunar vinnusóknarsvæða og skólasvæða en ekki síst ferðaþjónustunnar. Er því árleg aukning fjármagns sett þar um 700 millj. kr. fyrstu fimm árin. Að þeim loknum er miðað við að framlögin hækki um 2% árlega. Í ár brugðumst við við þessum vanda með því að auka vetrarþjónustuna umtalsvert og munum gera það í áætluninni með því að bæta 700 milljónum við núna fyrstu fimm árin.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður unnið að því að auka möguleika hjólandi í umferðinni. Þá er einnig aukin áhersla á almenningssamgöngur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Er þetta eitt af meginmarkmiðum í áætluninni. Í ráðuneytinu er unnið að stefnumótun um hvernig almenningssamgöngum verður best fyrir komið til framtíðar, þ.e. um allt land, og eru komnar fram tillögur sem þar eru í dag til umsagnar.

Einnig eru settar fram tillögur um úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið uppbyggingu almenningssamgöngukerfis. Meðal annars er þar gert ráð fyrir að Miklabraut verði lögð í stokk, sömuleiðis Hafnarfjarðarvegur í Garðabæ. Einnig að unnið verði að framkvæmdum við Breiðholtsbrautina, gatnamót við Kleppsmýrarveg og margt fleira. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að 21. september sl. skrifaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sá sem hér stendur, og fulltrúar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir viljayfirlýsingu um viðræður um uppbyggingu samgangna á og í gegnum höfuðborgarsvæðið, þar með talið almenningssamgangna. Viðræðurnar eru hafnar og er miðað við að hópurinn skili tillögum að breytingum eða nánari útfærslum á samgönguáætlun eigi síðar en 15. nóvember sem kynntar verða fyrir Alþingi og umhverfis- og samgöngunefnd. Þá verður umræðan um Sundabraut leidd til lykta sem sú nefnd mun vinna með eftir 15. nóvember.

Í samgönguáætlun er lögð mikil og rík áhersla á öryggi í samgöngum. Stefnt er á að öryggi á Íslandi verði meðal þess sem best gerist hjá nágrannaþjóðum og ekki verra en hjá þeim fimm bestu. Sérstök markmið eru sett um slíkt. Samkvæmt mati kosta umferðarslys og óhöpp samfélagið yfir 50 milljarða árlega. Það hefur heldur sigið á ógæfuhliðina á allra síðustu árum þar sem banaslysum og alvarlegum slysum hefur ekki fækkað sem við hefðum viljað sjá. Jafnvel má rekja fjölgun slysa til aukningar á umferð, ekki síst ferðamanna sem fara um landið á bílaleigubifreiðum.

Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miðar að því að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Þar má finna margar aðgerðir sem snúa að samgöngumálum og orkuskiptum en samgönguáætlun tekur mið af aðgerðaáætluninni. Má þar nefna almenningssamgöngur, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og um allt land, hjólreiðar og að nýjar ferjur í eigu ríkisins skuli ganga fyrir vistvænum orkugjöfum. Má í því sambandi minnast á nýja Vestmannaeyjaferju sem verður bæði rafmagnsferja og tvinnferja. Hún getur sem sagt gengið fyrir eingöngu rafmagni. Mikilvægi flugs fyrir hagvöxt og atvinnusköpun verður seint ofmetið. Í því ljósi hefur farið af stað stefnumótun með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila um nýja flugstefnu, reyndar fyrstu flugstefnu fyrir Ísland. Í þeirri vinnu verður farið yfir starfsskilyrði flugs og opinbert umhverfi og sett fram stefna sem ætlað er að styðja við starfsemi og uppbyggingu þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Samgönguáætlun gerir nú ráð fyrir auknum fjármunum til viðhalds flugvalla og að þeir verði árlega tæplega 600 millj. kr., en betur má ef duga skal. Nefnd að störfum er að fara yfir rekstur flugvallakerfisins og leitar hún leiða til þess að tryggja hann betur. Þar er stefnt að því að breytt rekstrartilhögun verði til þess fallin að tryggja betur rekstur og viðhald flugvallakerfis landsins. Meðal annars er nefndin að skoða hvort allir millilandaflugvellir landsins verði reknir af Isavia. Einnig má skoða leiðir til þess að setja þar inn varaflugvallargjald en einnig hefur þessi nefnd verið að skoða skosku leiðina til að tryggja markmið almenningssamgangnahlutans í því.

Í samgönguáætlun er forgangsraðað til viðhaldsframkvæmda flugbrauta, (Forseti hringir.) endurnýjunar brýnasta flugleiðsögu- og fjarskiptabúnaðar og endurnýjunar aðflugs- og brautarljósa. Að lokum, herra forseti, ef ég má örlítið fara yfir tímann, örstutt um siglingamál: Framlög til hafnabótasjóðs hafa aldrei verið meiri og nema um 1 milljarði árlega næstu fimm árin, þ.e. 5 milljörðum yfir fyrstu fimm árin. Áætlaður framkvæmdakostnaður á árunum 2019–2023 í höfnum innan grunnnets er um 7,8 milljarðar og utan grunnnets um 870 milljónir.

Ég legg til að þessi þingmál gangi að lokinni umræðunni til 2. umr. og til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.