149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður verðum mjög fljótt sammála um að það væri mjög mikilvægt að geta sett miklu meiri fjármuni víðar hringinn í kringum landið og fara í þær framkvæmdir eins fljótt og hægt er. Hér er verið að tala um að setja umtalsverða fjármuni, meiri en við höfum áður sett, bæði í viðhald og framkvæmdir fyrstu þrjú árin. Forgangsröðunin þar er umferðaröryggið, eins og hv. þingmaður hefur bent á og ég ræddi í fyrri ræðu minni, að aðskilja akstursstefnur á þeim köflum þar sem verða hreinlega langalvarlegustu slysin og tíðustu banaslysin, samhliða því að klára grunnnetið á Vestfjörðum. Þar eru Dýrafjarðargöngin og vegir tengdir Dýrafjarðargöngunum. Þeir vegir kosta 10 milljarða. Sú framkvæmd hefði kannski átt að vera tekin með þegar umræðan um Dýrafjarðargöng var tekin. Við viljum gjarnan geta farið úr einum göngum í önnur. En þessi framkvæmd (Forseti hringir.) er ekki bara um Dýrafjarðargöng, heldur 10 milljarða vegtengingu við Dýrafjarðargöngin. Ég kem kannski betur inn á það síðar í dag.