149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það hefur verið metið svo á síðasta ári eða kannski þarsíðasta að uppsafnaður vandi væri orðinn nær eða í kringum 60 milljarðar í viðhaldsþörf kerfisins. Í þessari samgönguáætlun er verið að setja upp áætlanir um að byggja upp öruggari og breiðari vegi með auknu burðarþoli sem þola þá umferð sem er fyrir hendi og síðan setja aukið fé til viðhalds til að vinna upp þennan bakkostnað sem er kominn í bakið á okkur. Þess vegna var tekin ákvörðun um að setja 4 milljarða til viðbótar ofan í þá 8 sem eru í fjárlögum á þessu ári. Mér segir svo hugur, þó að ég geti ekki metið það faglega á þessum tímapunkti, að þeir 4 milljarðar hafi komið sér býsna vel. Að mati Vegagerðarinnar munum við ná þessu gati við það að setja 10 milljarða á næstu fimm árum.

Varðandi síðan hugmyndir um það hvernig hægt (Forseti hringir.) sé að minnka slitlag er það áhugaverð umræða, en samgönguáætlun fjallar kannski meira um uppbyggingu og viðhald á þeim vegum sem við eigum þegar í dag.