Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er farið yfir ýmis markmið, t.d. um umhverfislega sjálfbærar samgöngur, í þessari samgönguáætlun, innviði fyrir rafhjól og reiðhjól, rafvæðingu hafna og ýmislegt svoleiðis. Mér finnst spurningin augljós: Af hverju ekki aðgerðir til að minnka slit á vegum þegar kostnaður við viðhald vega hefur farið úr 5,4 milljörðum í kringum 2005 upp í um 10 milljarða til og með árinu 2019? Það er sagt hérna að kostnaðurinn sé þessi. Umferðarþunginn hefur aukist gríðarlega og þar spila stórir bílar mikið hlutverk. Maður veltir fyrir sér hvort þeir greiði í rauninni fyrir það slit sem þeir valda. Eru það kannski minni bílarnir sem greiða frekar það slit? Umferð þyngri bíla er 5–13% (Forseti hringir.) samkvæmt minnisblaði Vegagerðarinnar en hver þungur bíll telur kannski á við 10.000 fólksbíla.