149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðir punktar sem hv. þingmaður bendir hérna á og fjallað er um lítillega í samgönguáætlun. Eins og hann benti á koma þeir líka fram í minnisblaði Vegagerðarinnar til fjárlaganefndar sem verður án efa umrætt í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Það sem ég vildi koma hér inn á er að að mati Vegagerðarinnar hefðu kannski 7–8 milljarðar dugað til viðhalds ef viðhaldið væri í lagi í dag með því að setja þessa auknu fjármuni á þessu ári, 12 milljarða, til viðhalds og lagfæringa og svo héðan í frá næstu fimm árin 10 milljarða, sem eru þá 20% aukning frá fjárlögunum. Þá telur Vegagerðin sig geta unnið það nokkuð vel til baka sem menn töldu að bjátaði hér á fyrir einu og hálfu ári. Það verður áhugavert að sjá mat Vegagerðarinnar eftir eitt ár hvað það varðar.

Varðandi flutningana er líka reyndar jákvætt að á síðustu árum hafa strandsiglingar aukist sem hafa létt verulega af (Forseti hringir.) vegakerfinu þyngstu umferðinni.