Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mikil plögg sem við erum með hér undir og til umræðu og gefst kannski ekki tími til í stuttum andsvörum að fara yfir mikið.

Mig langaði samt til að byrja á að segja að ég sé það að víða eða a.m.k. á nokkrum stöðum hér í áætluninni hinni lengri að þar er talsvert talað um fjármögnun framkvæmda. Í lið 2.3.10 er talað um að skoðaðar verði fjölbreyttar leiðir til fjármögnunar stórra framkvæmda í samstarfi við einkaaðila og með innheimtu veggjalda og í lið 2.3.11 um breytingar á fyrirkomulagi gjaldtöku vegna notkunar á vegum.

Mér finnst þetta dálítið merkilegt, sérstaklega ef maður skoðar ummæli hæstv. samgönguráðherra frá fyrri stigum þegar hann var í stjórnarandstöðu og átti m.a. orðastað við fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Jón Gunnarsson, og sagði þá, með leyfi forseta, í eldhúsdagsumræðum,

„Málflutningur samgönguráðherra er náttúrlega sá sem best passar í þessum efnum þegar hann segir: Ef þið viljið meira skuluð þið borga meira, og það fyrir þjónustu sem ég hygg að flestir séu sammála um að ríkið (Forseti hringir.)eigi að greiða og að menn séu með sköttum og gjöldum af eldsneyti búnir að greiða í ríkissjóð nú þegar.“(Forseti hringir.)

Getur hæstv. samgönguráðherra útskýrt fyrir mér hvað hefur breyst frá því að þessi orð hans voru sögð?