149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að mér þætti það nú frekar í rýrara lagi því ég sé ekki hvaða grundvallarbreytingar hafa orðið á því hvað þarf að gera í samgöngumálum frá því að þessi orð voru látin falla. En allt gott um það.

Það vekur athygli mína að í framsöguræðu sinni talaði hæstv. ráðherra um að samgönguáætlun væri fullfjármögnuð og þetta væri raunhæft plagg. En hann hnýtti reyndar við að það ætti bara við um fyrstu fimm árin. Ég gef mér þá að hitt hljóti að vera óraunhæft og ekki séð fyrir endann á hvernig eigi að fjármagna, enda er dagljóst að áætlunin hin lengri er mjög afturþung. Það er auðvitað gott að lofa því sem ekki þarf að standa við fram í tímann.

Að síðustu langar mig til að minnast á það að í síðari hluta áætlunarinnar eru eiginlega veigamestu framkvæmdirnar, a.m.k. fyrir suðvesturhornið (Forseti hringir.) þar sem mér sýnist að miðað við áætlunina eigi að verja u.þ.b. 20–25% fjármagnsins þar sem 60% þjóðarinnar búa. Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman.