149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur misskilið eitthvað við lesturinn. Ein megináherslan í upphafi er á aðskildar akstursstefnur inn og út úr höfuðborgarsvæðinu; það eru vegir í gegnum Hafnarfjörð, það er vegurinn uppi á Kjalarnesi og það er vegurinn í Ölfusinu. Það er næstu þrjú árin. Næstu þrjú ár er umtalsvert meira fé sett til vegaframkvæmda en við höfum gert nokkurn tímann fyrr.

Það er alveg rétt að við höfum bara fimm ára fjármálaáætlun, þess vegna er hún fjármögnuð næstu fimm árin, það er raunáætlun. En það er líka talað um það að á hinum fimm ára tímabilunum, þ.e. 10 og 15 ár héðan í frá, verði miðað við að 1,5% af landsframleiðslu fari til samgangna, fjármagnað með þeim hætti, og horft til langtímameðaltals langt aftur í tímann. Það er ekki óeðlilegt viðmið, en auðvitað mun það skýrast á ári hverju. Það mun bætast við eitt ár í hvert sinn sem við leggjum fram nýja fjármálaáætlun. En þessi fimm ára aðgerðaáætlun (Forseti hringir.) er raunhæf, fjármögnuð og í samræmi við fjármálaáætlun næstu fimm ára.