149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp umræðu um flugið því að tíminn var orðinn of knappur þegar ég hélt ræðu mína svo ég gat ekki farið nægjanlega ítarlega í flugið. Ég geri það kannski síðar í dag.

Helstu framkvæmdir sem eru í samgönguáætlun eru: Endurnýjun slitlagsins á Egilsstaðaflugvelli, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir að er komið á tíma; ný aðflugsljós í Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum; yfirborðsviðhald á flugbrautum og hlöðum á Akureyri, Vestmannaeyjum, Ísafirði og Þórshöfn. Svona til að draga þetta helsta saman.

Sá sem hér stendur er alveg sammála hv. þingmanni um að við þurfum að setja meira fé, sérstaklega í uppbyggingu annars vegar á millilandaflugvöllunum til þess að tryggja að þeir geti nýst nægjanlega vel sem varaflugvellir fyrir Keflavík. Þess vegna er verið að skoða hvort það sé skynsamlegri leið að Isavia reki alla millilandaflugvellina og hvort ekki sé skynsamlegt að taka að nýju upp svokallað varaflugvallargjald (Forseti hringir.) sem yrði annaðhvort lagt á flugvélar eða sæti. Sennilega fljúga um átta milljónir farþega með íslensku flugfélögunum (Forseti hringir.) hér í gegn. Það þarf ekki margar krónur (Forseti hringir.) á sæti til þess að við gætum aukið fjármagnið verulega, sem væri varaflugvallargjald. Þá gætum við hv. þingmaður kannski orðið sammála um að við værum komin vel á veg.