Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:16]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er akkúrat málið, við höldum við flugvöllunum eins og þeir eru í dag en umferðin hefur aukist svo mikið á undanförnum árum að staðreyndin er sú, eins og við þekkjum þegar upp hafa komið atvik á síðustu 18–24 mánuðum, að allt að 30 flugvélar koma inn á sömu einni og hálfri klukkustundinni til tveimur klukkustundunum til Keflavíkur bæði að morgni og um eftirmiðdaginn. Þegar eitthvað kemur upp á er ekki pláss á Akureyri og Egilsstöðum fyrir nema um fjórar vélar í besta falli ef bregða þarf frá Keflavík. Reykjavík er á sama veðursvæði og Keflavík. Ef veður hamlar lendingu eru það þessir tveir vellir sem taka við umferðinni.

Það er gríðarlega mikilvægt að fjármagni verði varið, hvernig sem þess er aflað, í akbrautir sem liggja samsíða flugbrautum. Það er ódýrasta leiðin, þar sem hægt er að taka út á og raða upp flugvélum, og svo flughlöðum. (Forseti hringir.) Ég minni á grjóthrúguna úr Vaðlaheiðargöngum sem stendur í Pollinum á Akureyri. (Forseti hringir.) Hún gæti nýst afar vel í undirlag undir flughlöð á Akureyri.