149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp í lokin og taka undir með hv. þingmanni um að það er mikilvægt að við förum í þessi verkefni, hvernig sem við finnum leiðina til að fjármagna þau. Bæði þurfum við að tryggja að við höfum þessa aðstöðu vegna þess að hún undirstrikar öryggið og bætir það verulega, en það mun líka tryggja um leið þá samkeppnishæfni sem lega landsins hefur gefið íslenskum flugfélögum, að setja hér upp það viðskiptamódel að fljúga hingað með tengifarþega. En á að vera hægt að gera það með ódýrari hætti vegna þess að menn þurfa auðvitað að vera með minna eldsneyti, geti flugvélar lent hér.

Það hefur líka verið rætt — Þorgeir Pálsson hefur sett það fram og því hefur enginn mótmælt að nauðsynlegt sé að hafa tvo millilandaflugvelli hér á suðvesturhorninu, einfaldlega til þess að hafa nægilegt öryggi. Síðan höfum við auðvitað Egilsstaði og Akureyri. Þar er möguleiki á að byggja upp (Forseti hringir.) og setja inn dráttarbíla í fyrstu (Forseti hringir.) sem gætu dregið flugvélar til þess að geta raðað þeim betur upp við aðstæður sem geta vissulega komið upp, sem við vonumst auðvitað að gerist ekki. En (Forseti hringir.) það er betra að hafa aðstöðuna tilbúna þegar það gerist.