Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þá er komin fram samgönguáætlun, bæði skammtíma- og langtímaáætlun og við okkur blasa þau gríðarmiklu verkefni sem bíða okkar á þessum vettvangi. Við höfum í raun lyft grettistaki í þessum málaflokki á undanförnum árum eins og í svo mörgu, ef horft er til þess hversu fámenn við erum í stóru landi. En það er margt sem á eftir að gera og það endurspeglast m.a. í hárri slysatíðni, afleiðingarnar af því að við eigum eftir að ljúka mikilvægum áföngum.

Ástandið hefur auðvitað snarversnað á undanförnum árum með aukningu í fjölda ferðamanna til landsins og slysum hefur fjölgað í samræmi við það. Slysamestu vegir landsins eru vegirnir í kringum höfuðborgarsvæðið, kringum þéttbýlið, en alvarlegustu og flestu slysin eru í kringum ljósastýrð gatnamót í Reykjavík. Það hlýtur að leiða hugann að því hvernig umferðarmálum hefur verið stjórnað þar á undanförnum árum og við því þarf að bregðast.

Það mátti búast við því þegar hæstv. ráðherra spilaði úr þeim fjármunum sem honum hafa verið lagðir til í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára að það myndi valda vonbrigðum. Það blasir við öllum sem þekkja vel til málaflokksins að verkefnin eru það stór að þrátt fyrir það aukna fjármagn sem ríkisstjórnin hefur sameinast um að setja í þennan mikilvæga málaflokk þá knýja mörg verkefni á, banka á dyrnar.

Það er sama hvert litið er á landinu í þeim efnum. Ég hef heyrt mikið í þingmönnum eftir kjördæmaviku þar sem menn segja: Já, það má nú kannski sætta sig við þetta ef það koma kannski 3,3 milljarðar í þetta verkefni eða 2,5 milljarðar í þetta verkefni á okkar svæði. Þegar ég taldi þetta saman voru þetta orðnir um 25 milljarðar. Þeir peningar eru ekki að koma inn í samgönguáætlun til fimm ára, það er alveg ljóst.

Á höfuðborgarsvæðinu er kannski ekki síst mikil gagnrýni meðal bæjarbúa og borgarfulltrúa á það sem lagt er til þess svæðis í samgönguáætlun og ég hef heyrt það á þingmönnum höfuðborgarsvæðisins að nú sé kominn tími til að standa saman. Við okkur blasir því nokkuð mikill slagur innan þings, milli svæða, milli kjördæma, milli þingmanna og þvert á flokka í því hvernig við röðum þessum fjármunum niður.

Það er áhyggjuefni að þessi samgönguáætlun er nokkuð afturhlaðin eins og kom hér fram áðan og ég tek undir það. Það kemur fram hjá hæstv. ráðherra að það hafi þótt eðlilegt að miða við 1,5% af landsframleiðslu. Já, það er í sjálfu sér hægt að búa sér til hvaða viðmið sem er í þeim efnum. Af hverju ekki 2%? Af hverju ekki 1,2%? Ég tel reyndar að í efnahagsumhverfi okkar, horfandi til næstu ára og missera, sé ekkert sem gefi okkur væntingar um að hægt sé að auka um 30–40% framlög til vegamála strax á sjötta ári. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann í þessum efnum, virðulegi forseti, það þýðir ekki að draga upp neina tálsýn gagnvart landsmönnum, málin eru það brýn. Við þingmenn fengum okkar skell og okkar lexíu í því þegar við skiluðum samgönguáætlun 2016.

Við verðum því bara að leggja spilin á borðið eins og þau eru. Hæstv. samgönguráðherra er ekki öfundsverður af þessari stöðu, þrátt fyrir að hann hafi fengið ríflega aukningu inn í málaflokkinn og það ofan á aukningu sem var búin að koma frá því þegar naumast var skammtað. Til þessa verðum við að horfa í nefndinni þegar við hefjum vinnu við þetta plagg og tökumst á við þau gríðarlegu verkefni sem fram undan eru.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur tekið undir og orðað það að leita verði annarra leiða til að fjármagna og flýta framkvæmdum. Slíkt blasir auðvitað við öllum. Það er alveg sama hvaða ríkisstjórn væri í þessu landi. Menn geta gefið hástemmdar yfirlýsingar og loforð þegar þeir eru í minni hluta eða þegar við erum í kosningabaráttu en staðreyndin blasir við þegar öllu er á botninn hvolft. Það gæti engin ríkisstjórn aukið þetta umtalsvert. Jafnvel þótt við tvöfölduðum þessa 5,5 milljarða aukningu á næstu árum værum við samt í stórkostlegum vandræðum, jafnvel þó við myndum þrefalda hana værum við í stórkostlegum vandræðum. Slíkar eru stærðir verkefnanna.

Árið 1996 hófust framkvæmdir við Hvalfjarðargöng. Ég var að lesa frétt í Dagblaðinu frá því í október 1996 þar sem var birt skoðanakönnun um það hvort að fólk ætlaði að keyra Hvalfjarðargöngin og hvort fólk væri sammála þessari framkvæmd, Hvalfjarðargöngunum. 70% þjóðarinnar voru andvíg. Það er eðlilegt, óvissan kallar gjarnan á slík viðbrögð. Það er okkar í pólitíkinni að stíga upp úr skotgröfunum, hafa yfirsýn og vega og meta hlutina kalt, forgangsraða.

Ég held að það sé augljóst öllum sem hafa kynnt sér þessi mál að við náum ekki að stíga þau stóru skref sem nauðsynleg eru öðruvísi en að leita nýrra leiða í fjármögnun. Það er engin tilviljun að þjóðir alls staðar í kringum okkur fara þessa leið, að hafa einhvers konar gjaldtöku til þess að geta tekist á við þessi stóru verkefni. Þó er það nú þannig að þær hafa miklu meiri þéttleika í byggð en við. Ég held að hér búi um þrír Íslendingar á hvern ferkílómetra, en íbúar á hvern ferkílómetra eru 15 í Noregi og þeir eru 35 í Danmörku svo dæmi séu tekin. Verkefnið er því erfiðara hjá okkur.

Við höfum á undanförnum vikum, nokkrir þingmenn ásamt sérfræðingum sem við höfum leitað til úti í bæ, sett saman hugmynd að áætlun um sérstaka fjármögnun vegaframkvæmda á næstu sex árum sem myndu leiða af sér framkvæmdir við hliðina á samgönguáætlun fyrir um 65 milljarða. Við munum kynna þessa áætlun, þessa hugmynd, fyrir þingmönnum, fyrir þingnefndinni eftir að málið verður komið þar inn, til þess að sjá hvort um þetta geti skapast umræða og samstaða um að fara einhverja slíka leið. Það er mikilvægt að við ljúkum vinnu við samgönguáætlun fyrir árslok, því að hún tekur gildi 2019 og vegvísirinn frá þinginu er þá ekki klár nema þetta liggi fyrir.

Slík fjármögnun myndi hafa verulega áhrif á samgönguáætlun. Miðað við okkar áætlanir myndi þetta þýða að um 15 milljarðar, verkefni fyrir um 15 milljarða, á fyrsta hluta samgönguáætlunar myndu losna og verða til ráðstöfunar í önnur verkefni. Þetta myndi líka gera okkur kleift að stíga stærri og betri skref í mikilvægum vegaframkvæmdum eins og frá Keflavíkurflugvelli inn til Kaplakrika í Hafnarfirði, einnig austur fyrir Selfoss. Þar, í stað þess að fara í það sem ég hef kallað bútasaum, gerum við tvíbreiðan veg með þremur mislægum gatnamótum. Við förum í Þrengslaveginn sem er ekki á dagskrá næstu fimmtán árin og svo getum við fært okkur út um land. Það eru mörg verkefni og tækifæri sem skapast við þetta, til að mynda gæti Öxi farið inn á fyrsta tímabil, Seyðisfjarðargöng gætu farið í gang að loknum Dýrafjarðargöngum. Fyrir vestan gætum við farið í Dynjandisheiði sem er órjúfanlegur hluti Dýrafjarðarganga og það er í raun sorglegt ef við ætlum að láta þá dýru framkvæmd standa og bíða eftir Dynjandisheiðinni sem er órjúfanlegur hluti hennar. Þá nýtist þessi framkvæmd ekki sem skyldi.

Þetta verður til umræðu, virðulegur forseti, á næstu vikum. Þessi tillaga sýnir að það er þröngur stakkur skorinn þó að aukningin hafi verið mikil. Það er eðlilegt að hæstv. samgönguráðherra forgangsraði í samræmi við það sem honum er útdeilt og sem slík er þessi áætlun mjög raunsæ á fyrstu fimm árunum, þótt ég telji hana vera full afturhlaðna og umfram væntingar á tímabilunum sem koma þar á eftir.