149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Hann hefur umtalsverða þekkingu á málaflokknum, bæði vegna starfa sinna á þinginu og sem ráðherra, en líka vegna þess að ég veit að hann hefur haft áhuga á þessum málaflokki um langt árabil.

Ég er með tvær athugasemdir eða spurningar. Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni um að það er mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd nái að ljúka verkefninu fyrir áramót þar sem núverandi samgönguáætlun rennur út í lok þessa árs. Það er mikilvægt að við höfum úr einhverju að spila strax á næsta ári.

Það er líka rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, eins og ég fór yfir í mínu máli, að það eru margir boltar á lofti sem nefndin þarf að geta fjallað um. En auðvitað er þetta er lifandi plagg og samkvæmt lögunum skal samgönguáætlun lögð fram a.m.k. þriðja hvert ár eða innan þriggja ára á þinginu. Auðvitað getur ný fimm ára áætlun komið uppfærð séum við búin að ramma inn þær nýju leiðir sem hv. þingmaður fór inn á.

Fyrri athugasemd mín snýr að umræðu um að áætlunin sé afturhlaðin og hugsanlega ekki raunhæf, það er á fyrstu þremur árunum. Við erum með 23–24 milljarða til framkvæmda og viðhalds. Við höfum tekið ákvörðun um að nota 10 milljarða á ári hverju þessi fimm ár til viðhaldsins. Það þýðir að fyrstu þrjú árin erum við með 13,5 milljarð í nýframkvæmdir. En síðustu tvö árin af fimm ára áætluninni fer það niður í 8 milljarða. Þess vegna er ég sammála hv. þingmanni og þeim hugmyndum um hvernig við getum hugsanlega komið með framkvæmdir utan samgönguáætlunar og fjárlaga.

Varðandi svo seinni hlutann, þetta 1,5%, (Forseti hringir.) sem er langtímameðaltal, er þess vegna ekki óraunhæft. Þá þurfum við ekki lengur að verja fjármagni sem við verjum í dag í uppbyggingu á Landspítalanum, (Forseti hringir.) kaup á þyrlu Landhelgisgæslunnar og til ýmissa bygginga. Þess vegna ég tel að svigrúm verði til frekari (Forseti hringir.) fjármögnunar í samgöngur eftir fyrstu fimm árin.