149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sérstök fjármögnun er vandasöm útfærsla. Þetta eru stórar og miklar framkvæmdir sem hæstv. ráðherra ræðir hér um. En við erum sammála um að það þurfi að hugsa út fyrir boxið. Ég tel reyndar að Sundabrautin upp á 50–70 milljarða sé ofreiknað. Ég hef séð hugmyndir um nýja útfærslu. Það er hægt að gera þetta í áföngum en slíkt krefst mikils undirbúnings.

Hvalfjarðargöngin. Norðmenn byggðu göng sambærileg Hvalfjarðargöngunum á sama tíma og Hvalfjarðargöngin voru byggð. Þar keyra núna 10.000–11.000 bílar í gegn á dag, það eru sjö þúsund og eitthvað bílar í Hvalfjarðargöngunum. Þeir eru ekki einu sinni farnir að ákveða hvort þeir ætla að tvöfalda göngin eða byggja brú með þeim. Það er því ekki komið að þessum verkefnum.

Það er líka grundvallaratriði í því fjármögnunarmódeli sem við settum upp að rennandi umferð sem þegar er til staðar muni greiða. Það getur lækkað veggjöldin umtalsvert, eins og við (Forseti hringir.) reiknuðum út, 140 kr. í gegnum gjaldhlið. Ef við ætlum að fjármagna framkvæmd að fullu og fara svo í gjaldtöku þegar henni er lokið eftir tvö, þrjú ár þá verður (Forseti hringir.) verkefnið miklu dýrara og gjaldtakan þar með miklu hærri, eins og Hvalfjarðargöngin eru gott dæmi um.