149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ber að skoða allar hugmyndir í þessa átt. Það er auðvitað önnur hlið á þeim peningi, ef svo má orða það. Að fjölga öxlum — það hefur svo sem verið gert og menn eru að reyna að komast af með burðinn. Ef við ætlum að minnka bílana þá þarf að fara fleiri ferðir. Þá verður flutningurinn líka dýrari fyrir landsbyggðafólk, það verður þá að mæta því líka. Þetta er skattur á landsbyggðina, vöruflutningar innan lands. Gerðar eru þær kröfur um allt land og í nútímasamfélagi að vörur og þjónusta berist hratt og örugglega. Það tryggir auðvitað búsetu. Góðir vegir auka hagvöxt. Dæmi um það eru þekkt úr sögunni, til að mynda í Bandaríkjunum; þegar þeir fóru í sín stórvirki í samgöngum hafði það gríðarlega mikil áhrif á hagvöxt í landinu.

Það má alveg örugglega horfa til þess sérstaklega hver hagvaxtaraukningin getur orðið ef við værum komin með greiðari leiðir. Að auki verður hagkvæmara að flytja af því að tíminn styttist. Það verður öruggara af því að slysum fækkar. Áætlað var að á þessum leiðum, sem ég var með undir — á þessum höfuðleiðum, fyrir utan allar þær aukaleiðir sem ég nefndi — kostuðu slysin um 4 milljarða á ári.

Það er sjálfsagt að skoða allar hugmyndir og útfærslur í þessu. Ég er opinn fyrir því og tilbúinn að taka þátt í slíkri vinnu.