149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta á líka við um fólksflutningabíla, almenningssamgöngur, rútur. Það er kannski ódýrast fyrir okkur að fara með sem flesta í flugi. Það má örugglega reikna það út að það sé tiltölulega hagkvæmt að greiða verulega niður flugfarmiða til að draga einmitt úr álagi á vegunum.

Hvað ber framtíðin í skauti sér? Ég hitti erlendan sérfræðing í þessum málum fyrir stuttu. Hann sagði mér fullum fetum, og ég hef aðeins verið að skoða það mál, að innan fárra ára, kannski fimm til sjö ára, yrðu menn farnir í gámaflutninga með drónum. Við getum ímyndað okkur hvaða áhrif það hefur á vegakerfið okkar; ef við erum að keyra niður Norðurárdalinn og það kemur dróni fljúgandi fram úr okkur. Þetta er raunhæft.

Þá er hægt að rifja upp söguna af því þegar menn horfðu á mynd af gatnamótum í New York um aldamótin 1900 — gatnamótin voru þéttskipuð hestvögnum — og spurðu: Hvar er bíllinn á myndinni? Þeir horfðu svo á sömu gatnamót 1913 og sögðu: Hvar eru hestvagnarnir á myndinni? Það liðu ekki nema 13 ár þar til (Forseti hringir.) þessi bylting átti sér stað. Ég held að við horfum jafnvel á enn hraðari þróun nú.