Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég tek undir það með þingmanninum að mér finnst þessi samgönguáætlun vera frekar afturþung þegar litið er til lengri tíma. Mér finnst það miður vegna þeirrar brýnu þarfar sem er á auknum samgöngubótum.

Hæstv. ráðherra talaði um að í framtíðinni væri hann jafnvel að hugsa um einhvers konar vegtolla vegna breyttra forsendna sem rekja má til orkuskipta í samgöngum, þegar fleiri rafmagnsbílar verða á ferð. Ég hjó líka eftir því að hann talaði um að hann og félagar hans væru að koma með hugmynd að áætlun til sex ára, þá væntanlega með annarri nálgun en ráðherrann er með í sinni áætlun.

Þar sem þeir eru báðir saman í ríkisstjórn velti ég því fyrir mér hvort ekki hefði verið gott að þeir hefðu unnið að þessari áætlun saman og lagt fram eina áætlun þar sem þetta hvort tveggja hefði verið leitt í ljós. Áætlunin hefði þá kannski orðið frambærilegri en sú sem við sjáum núna.