Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan gerir samgönguráðherra samgönguáætlun í samræmi við það sem honum hefur verið úthlutað; það er hið eðlilegasta mál. Hann getur ekkert gert meira. Hann er bundinn af þeirri ríkisfjármálaáætlun sem þingið hefur samþykkt. Það er til mikilla bóta í áætlunarbúskap ríkisins að sú aðferð skuli þó hafa verið innleidd, að menn séu farnir að horfa til lengri tíma og farnir að miða áætlanir sínar við það. Áður var þetta meira eins og veðurfræði eða veðurspá, jafnvel spá fyrir árið á eftir næsta ári og enn meiri veðurfræði eftir því sem lengra frá leið.

Við lærðum ákveðna lexíu við afgreiðslu samgönguáætlunar 2016 í aðdraganda kosninga, þingið. Við eigum að taka mið af þeirri lexíu. Við eigum að láta okkur hana að kenningu verða. Við eigum ekki að hræðast það að ræða nýjar leiðir. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur opnað á það að sérstaka fjármögnun þurfi ef við ætlum að hraða framkvæmdum; hann hefur tekið undir það og er með ákveðna vinnu í gangi til að skoða einstök verkefni.

Samhliða þeirri vinnu ákváðum við, nokkrir þingmenn, að setjast niður og fara yfir okkar sýn á það hvað yrði þá til umræðu hér samhliða samgönguáætlun í þinginu. Er þetta eitthvað sem við náum saman um? Ef ekki þá förum við bara hefðbundna leið. Það er ekkert að því að segja að við ætlum að fara aðeins hægar í þetta og sjá hvort ekki kemur til með að ára betur svo að við getum gert stærri hluti. Ég tel — ég er alfarið kominn á þá skoðun —að þetta sé mjög brýnt verkefni. Og það er hægt að byrja á því strax á næsta ári.