149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með ferðamennina. Síðustu tölur gefa til kynna að búast megi við 2,3 millj. ferðamanna á þessu ári. Það er sem sagt áfram aukning þótt hún sé ekki eins risavaxin og sú sem við höfum glímt við á undanförnum árum. Ég tel reyndar að allt of oft gleymist að til að mynda starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, starfsmenn Isavia, hafa unnið þrekvirki, glímt við náttúruhamfarir á hverju ári, starfsmenn í ferðaþjónustu glímt við að reyna að leysa þau mál. Það hefur tekist.

Hugmyndin gengur út á að þeir borgi einskiptisgjald sem verður umtalsvert hærra, en þeir sem þurfa oft vegna vinnu sinnar eða náms eða annarra erinda að fara um svona gjaldhlið borgi, eins og reikningsdæmið var sett upp, 140 kr. fyrir ferðina. Það munu menn (Forseti hringir.) spara á skömmum tíma þegar ferðahraðinn styttist orðið um margar mínútur, þá eyðist minna eldsneyti.