Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[17:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eitthvað hefur mælendaskráin riðlast til síðan ég bað um orðið, en allt í lagi, það er svo sem ágætt að komast að. Það sem mig langaði að tala um eru tengsl samgönguáætlunar almennt við þær aðgerðir og áætlanir sem landshlutasamtök gera hjá sér og hversu vel það skilar sér inn í samgönguáætlun. Ferlið sem við störfum nú eftir samkvæmt lögum um opinber fjármál er þannig að við setjum okkur ramma um þau útgjöld sem hið opinbera ætlar að nota í ýmsa málaflokka í fjármálaáætlun,. En núna leggjum við hins vegar samgönguáætlun fram mun seinna, sem er ekki endilega alveg í takti við fjármálaáætlun. Mér sýnast þó tölurnar halda í þetta skiptið miðað við fjármálaáætlun. Ég þarf að skoða það aðeins betur því að í fjármálaáætluninni er ekki farið eins nákvæmlega í hvað Samgöngustofa og sambærilegar stofnanir fá. Tölurnar virðast halda hvað rammana varðar sem settir eru fram í fjármálaáætlun, sem er jákvætt.

Ég sá einhvers staðar mun upp á 4 milljarða til Vegagerðarinnar. Þetta skolast dálítið til í ferlinu frá fjármálaáætlun að vori og svo er lögð fram samgönguáætlun að hausti. Það ætti að vera meiri samhljómur við vinnu þessara áætlana sem kosta pening, og svo ætti að taka tillit til þeirra eftir á í fjármálaáætlun frekar en að það sé gert með öfugum hætti. Þegar við samþykkjum rammana í fjármálaáætluninni veit fólk í rauninni ekki hvað er undir í samgöngunum, hvort við myndum t.d. vilja fjármagna meira eða minna af þeim áætlunum og miða við þá forgangsröðun sem landshlutasamtökin skila inn til ráðuneytisins fyrir samgönguáætlun, eða hafa aðra forgangsröðun en raun ber vitni þegar samgönguáætlun er lögð fram. Eða alla vega að hafa þá einhvers konar hugmynd um það þegar við samþykkjum rammann í fjármálaáætlun hvað nákvæmlega er undir, hvort málefnalegar ástæður séu til þess að gera rammann stærri eða minni eftir atvikum.

Borið hefur á því, og það er nokkuð sem vinna þarf betur af því að ferlið um fjárlögin og fjármálin hefur breyst á undanförnum árum, að umsagnir og fjárbeiðnir berast enn fjárlaganefnd í kringum gerð fjárlaga í staðinn fyrir að slíkt komi inn við gerð fjármálaáætlunar. Það eimir dálítið eftir af gamla verklaginu hvað það varðar. Það spilar líka pínulítið inn í þær áætlanir sem landshlutarnir gera um þær framkvæmdir sem þeir vilja leggjast í á landsvæðum sínum. Landshlutarnir raða upp verkefnunum og samþykkja þau á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtakanna, en svo er röðunin oft ekki sú sama þegar kemur að samgönguáætlun. Það er nokkuð sem ég vil biðja landshlutasamtökin og Sambands íslenskra sveitarfélaga að láta okkur á þingi vita betur um, þ.e. að þegar samgönguáætlun og í rauninni fjármálaáætlun og slíkt kemur fram sé ljóst hvort sú forgangsröðun sem kemur fram í samgönguáætlun sé í takti við þá forgangsröðun sem þegar var búið að samþykkja í nærsamfélaginu, í landshlutunum, hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og því um líkt, til þess að við á þingi getum leitað eftir málefnalegum ástæðum fyrir því að forgangsröðun sé breytt miðað við það sem nærsamfélagið samþykkti. Ég kalla eftir þess háttar umsögnum frá sveitarfélögum úti um allt land, hvar þeirra samþykkti forgangur er og hvort hann endurspeglist vel eða illa í samgönguáætluninni.

Ég talaði aðeins um viðhald vega í andsvörum við hæstv. ráðherra. Þær upphæðir sem talað er um hér eru orðnar ansi háar. Komið hefur í ljós að það er ansi mikil viðhaldsþörf, enda hefur umferð aukist alveg gríðarlega, sérstaklega á suðvesturhorninu, um Suðurland og Vesturland — náttúrlega alls staðar á heildina litið en sérstaklega hérna á suður- og suðvesturhorninu.

Vegagerðin hefur skilað minnisblaði til fjárlaganefndar þar sem kemur mjög skýrt fram að til þess að vega upp á móti þessu aukna álagi vill Vegagerðin einfaldlega byggja betri vegi. Það er gott og blessað en það er líka hægt að vinna á móti þessu aukna sliti einmitt með því að minnka álag með ýmsum hætti, þá sérstaklega álag sem stórir og þungir bílar valda. Nú er mikið af samgönguframkvæmdum fjármagnað með gjaldi, t.d. bensíngjaldi. Ríkissjóður leggur til fé aukalega umfram það upp að vissu marki en svo eru ýmis önnur gjöld og skattar sem leggjast á samgöngur sem ekki er sanngjarnt að segja að eigi bara að setja í samgönguuppbætur. Það er ýmislegt annað sem þarf að huga að t.d. varðandi öryggi og jafnvel heilbrigðiskerfið o.s.frv. af því að það verða alltaf slys í samgöngum. Það verður að telja fleira með en bara samgöngurnar í heildarskattstofni samgangna. Við gætum hins vegar horft á þessi ráð um að ekki sé nóg að byggja bara upp betri vegina, það kostar mjög mikið. Við getum líka, alla vega á meðan við erum að vinna á þessari uppsöfnuðu viðhaldsþörf, farið í öðruvísi verkefni til að létta á álaginu á sama tíma. Við erum í rauninni að spara ákveðinn vaxtakostnað.

Það er áhugavert í áætluninni fyrir svæðin að talað er um undirbúning verka utan áætlunar sem er fyrir öll svæðin sem kostnað upp á 50 milljónir á hverju ári, 250 milljónir yfir áætlunartímabilið. Það er sama upphæð og var í síðustu samgönguáætlun, alltaf 50 milljónir á hverju ári í undirbúning verka utan áætlunar. Það er engin verðlagsuppfærsla miðað við síðustu samgönguáætlun. Það var á verðlagi þeirrar samgönguáætlunar þannig að maður veltir fyrir sér hvað þessi undirbúningur verka kosti utan áætlunar. Ég skil alveg að stöðugt sé verið að vinna að næstu framkvæmdum, en erum við orðin hagkvæmari í þeim efnum? Hvað er þetta, fjórir, fimm starfsmenn eða eitthvað svoleiðis, sem sinna þessu allan daginn allan ársins hring, sem undirbúa verk utan áætlunar? Það væri áhugavert að sjá einhverja greiningu á því hvernig þessum peningum er varið.

Þarna er talað um Hvalfjarðargöng, að leitað verði leiða til þess að fjármagna tvöföldun Hvalfjarðarganga í samstarfi við einkaaðila. Það sem er áhugavert þar er að svipuð framkvæmd var á síðustu samgönguáætlun um Sundabraut þar sem hún var merkt á nákvæmlega sama hátt, að leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut í samstarfi við einkaaðila. Nú er það ekki inni en hins vegar er það aðeins útskýrt í greinargerðinni þannig að ég velti fyrir mér af hverju ekki sé gert ráð fyrir því á sama hátt. Hérna er tvöföldun Hvalfjarðarganga sérstaklega merkt. Ég velti fyrir mér af hverju Sundabraut sé þá ekki líka sérstaklega merkt hvað það varðar.

Þetta er áhugavert plagg og ég hlakka til þess að fá athugasemdir og umsagnir landshlutasambanda víðs vegar um land og umsagnir almennt um það hvernig samgönguáætlunin passar við þær áætlanir sem mismunandi landshlutasambönd hafa gert hjá sér.