149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[17:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Þá er komin fram samgönguáætlun í formi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2019–2033 sérstaklega og einnig 2019–2023, þ.e. fimm ára áætlunin.

Herra forseti. Það mátti búast við því að ekki yrði unnt að uppfylla óskir allra í þessari áætlun. Áætlunin kemur þannig ekki á óvart. Hæstv. ráðherra samgöngumála var fyrir fram mikill vandi á höndum. Um það verður ekki deilt að verkefnin eru mörg. Það fyrsta sem unnt er að finna í þessari áætlun er að hún er þung og fjárfrekari á seinni tímaskeiðum til 2033. Það hefur auðvitað tíðkast að lofa inn í framtíðina. Hæstv. samgönguráðherra segir að nú sé komin fram áætlun sem standi til að standa við, jafnvel þótt áhrifin nái miklu lengra inn í framtíðina en ríkisstjórnin lifir, og kemur því líkast til í hlut annarra að efna það loforð. En auðvitað var ekkert að marka fyrri áætlun.

Uppbygging samgangna er ein sú albesta fjárfesting sem nokkurt þjóðfélag getur farið í. Það er ekki bara öryggismál heldur eitt allra besta byggðamál sem fyrirfinnst. Framkvæmdir stytta leiðir milli byggðarlaga svo að styttra er fyrir íbúa í alla þjónustu, stundum lífsnauðsynlega þjónustu, og hefur það í för með sér sparnað til lengri tíma auk þess sem það leiðir af sér ótrúlegan þjóðhagslegan sparnað.

Ég ætla að taka nokkur dæmi úr þessari áætlun. Brú yfir Hornafjarðarfljót. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdin skiptist á fyrsta og annað tímabil — 2,3 og 2,2 milljarðar á hvoru tímabili — en gert er ráð fyrir upphafi framkvæmda 2021 og að þær taki nokkur ár því að mikill hluti fjármagnsins kemur á tímabilinu 2024–2028. Það eru auðvitað vonbrigði að ekki sé farið hraðar í þessar framkvæmdir.

Fjarðarheiðargöng eru sett á frost og fjármögnuð 2029–2033. Hvaða skilaboð eru það til íbúa á Seyðisfirði sem hafa kallað eftir úrbótum í sínum samgöngum árum saman? Varðandi Gatnabrún í Mýrdal er gert ráð fyrir 450 milljónum 2021. Það er auðvitað mjög brýnt að laga þá brekku og þær beygjur sem hafa verið mikil slysagildra. Næst ætla ég að nefna göngin undir Reynisfjall. Það á augljóslega eftir að klára þar ákveðinn undirbúning, þar á meðal að fara í umhverfismat. Í áætluninni er þannig ekki gert ráð fyrir fjármagni til þeirra ganga en tekið fram að möguleiki sé á að göngin verði gerð í samstarfi við einkaaðila. Það orðalag kemur fyrir í samgönguáætlun á nokkrum stöðum og ég rak augun í þetta varðandi göngin undir Reynisfjall. Ég tel mjög mikilvægt að flýta umhverfismati þar svo að það komist sem fyrst í sjónmál að þessi mikla samgöngubót sjái dagsins ljós í náinni framtíð.

Herra forseti. Ég fagna því að gert er ráð fyrir að brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi verði gerð tvíbreið á árunum 2020–2021 en það er fyrsta einbreiða brúin á hringveginum í suður og austur frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Lítum næst á hringveg 1 á milli Selfoss og Hveragerðis. Þar er gert ráð fyrir þriggja til fjögurra ára framkvæmdartíma á kaflanum frá Selfossi að Varmá á næstu þremur árum. Því ber að fagna. En það sama verður ekki sagt um kaflann frá Varmá að Kömbum. Hann verður ekki kláraður fyrr en 2023 þannig að frágangi þessa hættulega vegarkafla verður ekki lokið fyrr en eftir fimm ár sem er að mínu mati of langt inn í framtíðina.

Og hvað með nýja Ölfusárbrú? Gert er ráð fyrir að sú framkvæmd verði ekki fjármögnuð fyrr en á tímabilinu 2024–2028, sem er algerlega fráleitt, en sagt að henni megi flýta ef hún verði sett í einkaframkvæmd með gjaldtöku. Ölfusárbrú er brýnt öryggismál fyrir alla íbúa og viðbragðsaðila á svæðinu. Þarna myndast umferðarstíflur á mestu annatímum, langar raðir bifreiða, og það er hagsmunamál fyrir alla Sunnlendinga, og reyndar landsmenn alla, að þetta vatnsfall verði brúað svo að sómi sé að sem allra fyrst.

Herra forseti. Samkvæmt áætluninni mun taka fjögur ár að tvöfalda hringveg 1 um Kjalarnes. Við munum ekki sjá fyrir endann á vegabótum þar fyrr en 2022 og hámark framkvæmdanna verður í lok þess tímabils. Þetta er ekki ásættanlegt fyrir íbúa og vegfarendur á þessum allra varhugaverðasta vegarkafla á landinu. Tvöföldun Hvalfjarðarganga er ekki á dagskrá samgönguáætlunar næstu 15 árin en með því orðalagi sem ég hef áður nefnt, varðandi aðrar framkvæmdir, er tekið fram að leitað verði leiða til að fjármagna verkefnið í samstarfi við einkaaðila. Vegurinn frá Hafnarfirði upp á flugstöð — hvernig er gert ráð fyrir að tvöföldun hans ljúki og hvenær? Þetta er einn allra mest ekni vegarspotti á landinu. Tvöföldun þessa vegar hefur dregist úr hömlu. Í áætluninni er gert ráð fyrir að vegurinn úr Hafnarfirði að Krýsuvíkurvegi verði tvöfaldaður á næsta og þarnæsta ári en spotti að Hvassahrauni er á áætlun eftir tíu ár, að tvöföldun hans ljúki eftir tíu ár, í lok annars tímabils, 2028. Vegurinn frá Fitjum upp að flugstöð er að mestu á áætlun 2029–2033.

Og hvenær fáum við að upplifa tvöföldun Reykjanesbrautarinnar alla leið úr Hafnarfirði upp á flugstöð? Tvöföldun hennar verður samkvæmt þessu lokið eftir 15 ár. Hvað þýða þau skilaboð þegar haft er í huga að hún hefði verið nauðsynleg miklu fyrr vegna aukinnar umferðar um Hvalfjarðargöng, hvað þýða þessi skilaboð varðandi þessa einkaframkvæmd? Orðalag víða í áætluninni um einkaframkvæmd — að hægt verði að fara í ýmsar framkvæmdir ef tekst að koma þeim í einkaframkvæmd og fjármagna þannig — þýðir að mínu mati einungis eitt: Hér er verið að boða framkvæmd með einhvers konar gjaldtöku, einkaframkvæmd eða ekki.

Svo eru það margar aðrar framkvæmdir sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna skrefið er ekki stigið til fulls strax frekar en að henni sé lætt inn í smáskömmtum, þeirri fyrirætlan stjórnvalda að fjármagna allar stórframkvæmdir í vegakerfinu á næstu árum og áratugum með gjaldtöku. Það væri heiðarlegra að taka slaginn strax og ráðast þá þegar í þessar nauðsynlegu framkvæmdir sem nú þurfa að bíða nokkur misseri meðan stjórnvöld telja í sig kjark til að fara þessa leið.

Hvaða framkvæmdir eru það sem ég hef hér nefnt? Greinilega Hvalfjarðargöngin, Ölfusárbrú hugsanlega, Reynisfjallið örugglega, Fjarðarheiðargöng. Hvar er Sundabrautin? Hún er ekki nefnd. Ekki kom ég auga á hana. Og ég gæti hugsanlega nefnt fleiri slíkar framkvæmdir. Hæstv. samgönguráðherra hefur í þessu skyni skipað starfshóp til að huga að því hvort eða hvernig þeirri hugmynd yrði best á lappir komið. Að minnsta kosti er auðséð, þeim sem hér stendur, að finna þarf fjármögnunarleiðir sem duga til að koma vegakerfinu okkar inn í nútímann.

Herra forseti. Við köllum á raunhæfar lausnir sem duga til að ganga í þær bráðnauðsynlegu framkvæmdir sem ég hef hér nefnt. Þessi samgönguáætlun er góð eins langt og hún nær. Hún nær bara ekki nógu langt.