Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[17:22]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um samgönguáætlun. Það er mjög jákvætt að sjá að tilraun er gerð til að horfa til lengri tíma en venjulega, að horfa til allt að 15 ára með öllum fyrirvörum um hvaða svigrúm verður til fjárfestinga á hverju tímabili fyrir sig — því ber að hrósa. Það verður að taka viljann fyrir verkið. Það er gríðarlega mikilvæg nálgun að horfa lengra fram í tímann og reyna að forgangsraða verkefnum eftir þörf hverju sinni og að teknu tilliti til aðstæðna.

Ég fagna líka orðum hæstv. samgönguráðherra þess efnis að hér er þó í fyrsta sinn verið að skila til þingsins samgönguáætlun sem rúmast innan þeirra fjárveitinga sem ætlaðar eru í samgöngumál á komandi fimm árum í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er vel. Það hefur verið löstur á nálgun þingsins í þessum málum hingað til að setja samgönguáætlun upp sem einhvers konar sameiginlegan óskalista allra án þess að nokkurn tímann sé raunhæft að fjármagna þann lista að fullu eins og dæmi síðustu samgönguáætlunar sýnir okkur svo ljóslega.

Það er hins vegar í því samhengi nokkuð sem ég hnýt um en það varðar umferðarþróun hér á landi á undanförnum árum. Það er auðvitað jákvætt að samhliða miklum og góðum vexti ferðaþjónustu hefur umferð aukist mjög mikið. Við sjáum líka mikla aukningu landflutninga á undanförnum árum og áratugum raunar, sem setur álag á vegakerfið okkar. Þá verðum við um leið að horfast í augu við það að ekki hefur fylgt, hvorki í nýfjárfestingu né í viðhaldi, fjármögnun. Það er viðfangsefni okkar hér.

Það er leitt að horfa upp á þá stöðu sem nú er. Með mikilli útgjaldaaukningu á síðustu árum hafa samgöngumálin að mörgu leyti verið skilin eftir. Það er erfitt að standa frammi fyrir því enn eina ferðina að þegar tekið er að kólna í hagkerfinu, þegar við ættum að hafa svigrúm til að ráðast í auknar framkvæmdir, þá er það svigrúm ekki fyrir hendi af því að peningunum hefur einfaldlega verið eytt í annað og er áfram ráðstafað annað á komandi misserum og árum.

Ég vil helst gagnrýna það í nálguninni í þessari áætlun að mér sýnist, ef ég mætti einfalda það aðeins, að þá sé þingið dálítið skilið eftir með kaleikinn. Samgöngubætur eru nauðsynlegar á þeim svæðum þar sem umferðaraukningin hefur verið hvað mest, sem er einmitt hér á suðvesturhorni landsins — þegar horft er á Reykjanesbrautina, á Suðurlandsveginn austur fyrir Selfoss og á Vesturlandsveg norður fyrir Borgarnes, þar hefur orðið gríðarleg umferðaraukning á undanförnum árum. Á sama tíma hafa framkvæmdir á þessum vegum setið á hakanum í mjög langan tíma. Ef við horfum t.d. til þess grettistaks sem var lyft á sínum tíma, við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar að hluta, þá var það í allt öðru umferðarálagi en við horfum upp á á þeim sama vegi nú. Það er orðið mjög brýnt að ljúka þeirri framkvæmd en þá er fjárhagslegt svigrúm ekki fyrir hendi. Skilaboðin til þingsins eru á einfaldan hátt þessi: Ef þið viljið gera eitthvað í þessu þá verðum við einfaldlega að taka upp veggjöld á þessa vegaspotta.

Það kann vel að vera að sú sé raunin. Ég er hins vegar kannski frekar sammála hæstv. samgönguráðherra, áður en hann varð samgönguráðherra, um að kannski væri heiðarlegra að tala um hvaða skattahækkanir við ætlum að nota til að fjármagna vegakerfið okkar eða hvernig við ætlum að breyta gjaldtöku á vegakerfinu heildstætt. Ég held við verðum að nálgast verkefnið. Í þessari þingsályktunartillögu er enn eina ferðina talað um að tímabært sé að skoða nýja gjaldtöku í vegakerfinu. Það hefur verið talað um það í nokkur ár, að tímabært sé að skoða nýja gjaldtöku í vegakerfinu, en ég held að við þurfum að fara að ljúka þeirri vinnu og ákveða hvaða framtíðarfyrirkomulag við ætlum að hafa á þessari gjaldtöku. Það kann vel að vera að vegna tæknilegra annmarka enn sem komið er séu framtíðarlausnirnar ekki alveg tilbúnar, en þá getum við brúað tímabilið þar á milli.

Þegar við horfum á þá þróun sem mun verða í orkuskiptum í samgöngum — sem þyrfti að vera enn metnaðarfyllri af hálfu þessarar ríkisstjórnar, við þyrftum að vera með hraðari orkuskipti — gefur augaleið að eldsneytisgjöld munu ekki skila okkur sömu tekjum til uppbyggingar á vegakerfinu og þau hafa gert í fortíð. Við þurfum að fara að nálgast gjaldtöku á vegakerfinu út frá gjaldi á ekna kílómetra óháð eldsneyti og skattleggja síðan sérstaklega losunina sem slíka. Við þurfum jafnvel að einhverju leyti að endurskoða gjaldtöku á þungaflutninga, þ.e. að hún endurspegli á einhvern hátt það slit sem verður á vegunum vegna þeirra, þ.e. að grunnstefið sé að notandinn greiði. Þeirri vinnu þarf að hraða. Það gengur ekki lengur að tala ár eftir ár um að tímabært sé orðið að skoða þetta. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra eindregið til þess að flýta þeirri vinnu. Sú ábyrgð bíður okkar þá í þinginu að taka afstöðu til þeirra mismunandi leiða sem kunna að vera færar í þessu samhengi.

Ég held að það sé ekki til lengri tíma sanngjarnt að varpa þessum kostnaði eingöngu í veggjöldum, t.d. á íbúa hér á suðvesturhorninu. Vissulega greiða allir slík gjöld með einhverjum hætti, öll eigum við samgöngur við suðvesturhornið. En það má heldur ekkert gleyma því að í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins býr fjöldi fólks sem sækir vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins; býr á Reykjanesi, í Árborg, á Akranesi eða í Borgarnesi. Hér yrði þá um að ræða gríðarlega mikinn kostnað í atvinnusókn fyrir viðkomandi hópa. Ég held að það sé eðlilegt að við nálgumst fjármögnun vegakerfisins með heildstæðari hætti en það.

Þetta finnst mér gagnrýniverðast þegar ég horfi á þetta. Ég vil forðast umræðu um einstaka vegaspotta á þessum tímapunkti. Við höfum öll okkar skoðanir á því. Það er hins vegar alveg augljóst út frá umferðarþunganum að það mun verða mjög mikill þrýstingur í samfélaginu og hér í þinginu á nauðsynlegar umbætur á Reykjanesbrautinni, að ljúka tvöföldun þar. Það er alveg ljóst, þegar horft er á stórt verkefni eins og flutning Ölfusárbrúar, að það er orðið mjög brýnt verkefni fyrir samfélagið á Suðurlandi, sérstaklega á Selfossi. Út frá slysatíðni og auknum umferðarþunga og umferðarstöppum hér á höfuðborgarsvæðinu er orðið mjög brýnt að ráðast í nauðsynlegar umbætur á stofnæðum borgarinnar eins og ýmsar stokkahugmyndir sem hér hafa verið nefndar.

Þá er heldur ekkert dregið úr mikilvægi samgöngubóta á landsbyggðinni, og ýmis jarðgangaverkefni hafa verið nefnd. En þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfum við að hafa efni á þessum framkvæmdum. Við þurfum að geta ráðið við það að fjármagna vegakerfið okkar. Það leiðir hugann líka að öðru, sem er viðhaldið. Það hefur komið fram í umræðunni hér og er alveg ljóst að mjög mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf er í vegakerfinu sem við þurfum að ná utan um. En það þurfum við að geta leyst innan þess stakks sem sniðinn hefur verið í fjármálaáætluninni. Ég ætla ekki að tala um stórsókn og stóraukin útgjöld til vegamála á sama tíma og ég hef verið að gagnrýna mjög harðlega þá miklu útgjaldaaukningu sem þegar hefur orðið í ríkisrekstri. Við þurfum að finna leiðir bæði til þess að ná fram auknu hagræði í ríkisrekstrinum sjálfum og til þess að ná utan um brýnustu verkefnin hér og þá í formi nýrrar gjaldtöku, að byrðarnar af þeim verkefnum dreifst jafnt á okkur öll.