Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[17:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Forseti. Við ræðum eitt stærsta verkefni Alþingis, samgönguáætlun til 5 og 15 ára. Hún er ekki aðeins stór hvað varðar þann tímaramma sem er settur heldur líka umfang aðgerða hvað varðar fjármuni og auk þess vegna þeirra áhrifa sem framkvæmdir hafa til framtíðar. Það er nefnilega þannig að vegur sem er lagður í dag verður enn ekinn eftir einhverja áratugi. Hvernig við skipuleggjum kerfið árið 2018 hefur áhrif á það hvernig börn okkar og barnabörn umgangast landið. Það er því stórt verkefni fyrir höndum, sérstaklega innan umhverfis- og samgöngunefndar, og það verkefni gæti eiginlega ekki borið að á betri tíma.

Í byrjun vikunnar fengum við í hendurnar skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem sýndi okkur enn einu sinni og kannski skýrar en nokkru sinni fyrr að aðgerðir í þágu loftslagsmála þola enga bið. Ef við ætlum að skila komandi kynslóðum ekki aðeins öruggu og nothæfu samgöngukerfi heldur líka veröld til að búa í þá þurfa allar áætlanir hins opinbera, ekki síst samgönguáætlun, að taka mið af þeim áskorunum sem því fylgja.

Það er brýn þörf á byltingarkenndum breytingum til að við getum tekist á við loftslagsvandann og þær breytingar þurfa að koma skýrar fram í samgönguáætlun. Ég ber mikla von í brjósti um að umhverfis- og samgönguáætlun takist á við það verkefni að bæta inn í áætlunina miklu sterkari loftslagsnótum en þar eru nú þegar.

Fyrr í haust kynnti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hún byggir á tveimur meginstoðum sem eru annars vegar binding kolefnis í gegnum skógrækt eða endurheimt votlendis og hins vegar orkuskipti í samgöngum. Ég vil meina að samgönguáætlun sé í raun þriðja stoðin af því að hún snýst ekki um að skipta um orkuna sem bílaflotinn gengur fyrir heldur að bylta bílaflotanum. Hún á að snúast um að það verði færri einkabílar, auknar almenningssamgöngur og betra að vera gangandi og hjólandi vegfarandi á Íslandi. Við þurfum ekki aðeins að skipta út olíunni fyrir rafmagn á bílunum heldur að skipta bílunum út fyrir eitthvað annað upp á framtíðina að gera.

Mér þykir því miður að í þeirri tillögu sem liggur fyrir þinginu takist það ekki nógu vel. Það vantar að samgönguáætlun og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum tali miklu betur saman. Kannski er það vegna þess að þær koma fram á sama tíma, en það vantar konkret leiðir í samgönguáætlun til að hrinda í framkvæmd aðgerðum í þágu loftslagsmála. Í samgönguáætlun er undir markmiðum um umhverfislega sjálfbærar samgöngur talað um að unnið verði í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Það kemur víða fram í skjalinu. En það vantar svart á hvítu aðgerðir til að hrinda í framkvæmd á tímabili fimm ára áætlunarinnar. Það vantar aðgerðir sem stefna að því að fækka bílum í umferð.

Þetta skiptir svo sannarlega máli, því að eins og kom fram þegar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt eru allar líkur til þess að bifreið sem er keypt núna verði á götunum árið 2030 þegar uppgjör vegna Parísarsamkomulagsins verður. Hún mun þar með teljast til þeirra skuldbindinga sem Ísland stenst eða stenst ekki eftir atvikum. Þess vegna skiptir ekki bara máli að frá deginum í dag aukist hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum ár frá ári heldur að bílum fækki.

Þá hjó ég eftir því þegar ég fékk áætlanirnar í hendurnar að þær hafa að því er virðist verið umhverfismetnar, eins og lög gera ráð fyrir og eins og gert hefur verið með síðustu áætlanir, en ég sé ekki merki um að þær hafi verið sérstaklega metnar út frá loftslagsmarkmiðum líkt og kveðið er á um að ríkisstjórnin stefni að með allar stærri áætlanir. Það hefði þurft að gera en þar sem það var ekki gert legg ég til að umhverfis- og samgöngunefnd skoði þann þátt sérstaklega, að hún skoði hvernig aðgerðir sem lagt er upp með í samgönguáætlun muni þjóna loftslagsmarkmiðum. Ég vona að nefndin meti báðar hliðar jöfnunnar, hvar við göngum í rétta átt og hvar ekki.

Mig ætla að ljúka örstuttri yfirferð minni á því að taka saman þrjú, fjögur atriði sem mig langar sérstaklega að benda á. Mér finnst mjög gott og framför frá fyrri áætlun hvernig talað er um gangandi og hjólandi vegfarendur. Samgöngur eru nefnilega meira en bílar, flugvélar og bátar. Samgöngur eru allt það sem við gerum til að komast á milli staða, hvort sem það er fyrir eigin kraft eða vélarafl einhvers tækis. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við búum vel að gangandi og hjólandi vegfarendum í samfélaginu, ekki einungis í þéttbýlinu heldur líka þannig að hægt sé að fara á milli staða á þann hátt, vegna þess að hver einasti einstaklingur sem við náum að færa úr bílnum og yfir í að nota eigin kraft til að fara á milli staða telur ofboðslega mikið í þágu loftslagsmála.

Þá þykir mér gott að hér sé enn gert ráð fyrir 1 milljarðs viðbótarframlagi til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem hafa svo sannarlega verið vel nýttar, til að auka þjónustu við fólk á þéttbýlasta svæði landsins. Ég vil hvetja umhverfis- og samgöngunefnd til að festa þá upphæð, og jafnvel hækka hana, út fimm ára tímabilið því að í tillögunni rennur viðbótarframlagið út á síðasta eða næstsíðasta ári áætlunarinnar, að mig minnir.

Svo er það kannski stærsta púslið sem vantar, stærsta stykkið, sem hefði verið gott að hafa hér en er sem betur fer komið í einhvern farveg og verður að skila árangri áður en við samþykkjum þessa áætlun, og það er borgarlínan. Það er framkvæmd sem er gríðarlega stór og mikilvæg þegar kemur að því að við uppfyllum skuldbindingar okkar í loftslagssamningum og uppfyllum skyldur okkar gagnvart komandi kynslóðum um að hér sé lífvænlegt samfélag. Framkvæmdatími borgarlínu á að hefjast 2020. Það er á öðru ári fimm ára áætlunarinnar. Þegar samkomulag næst milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og samgönguyfirvalda, sem ráðherra sagði að yrði væntanlega 15. nóvember, vænti ég þess að umhverfis- og samgöngunefnd taki sig til og setji borgarlínu á skýran hátt í samgönguáætlunina.

Eins og ráðherra sagði snýst samgönguáætlun um öryggi en hún snýst ekki einungis um öryggi vegfarenda heldur einnig um öryggi þeirra sem munu byggja landið á eftir okkur. Ef við höfum ekki borgarlínu, ef við höfum ekki raunhæfa valkosti í almenningssamgöngum til að koma fólki út úr mengandi samgöngumáta verður ekki mikið öryggi fyrir komandi kynslóðir hér á landi.